Veður

Hæðin yfir Græn­landi heldur köldum loft­straumi að landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Djúpavogi.
Frá Djúpavogi. Vísir/Vilhelm

Hæðin yfir Grænlandi ræður enn veðrinu hér á landi og heldur fremur köldum loftstraumi að landinu. Hitinn yfir daginn sunnanmegin á landinu getur rofið tíu stiga múrinn ef nægilega bjart verður en um landið norðanvert verða plúsgráðurnar mun færri.

Frá þessu segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Landsmenn mega búast við norðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu, lítilsháttar él á Norðaustur- og Austurlandi, en annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Heldur hægari vindur sunnanlands og stöku skúrir þar í dag.

„Þegar líður á vikuna gera spár ráð fyrir að meira sjáist til sólar á Norðurlandi svo að eitthvað hækkar hitastigið að deginum, en aftur á móti verður ansi víða næturfrost,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðaustan 5-10, en hægari breytileg átt S-lands. Þurrt að kalla á NA- og A-landi, annars skýjað með köflum og skúrir við S-ströndina. Hiti 1 til 10 stig að deginum, mildast SV-til en víða næturfrost.

Á miðvikudag: Norðaustlæg eða breytileg átt 3-8. Skúrir á S-landi og dálítil él A-lands, annars þurrt. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag: Norðlæg eða breytileg átt 3-8 og víða bjart veður, en líkur á skúrum S-lands. Hiti 3 til 9 stig yfir daginn.

Á föstudag: Norðlæg eða breytileg átt og bjart veður, en skýjað með köflum A-til. Svalt í veðri fyrir austan, en hiti að 10 stigum um landið SV-vert.

Á laugardag: Suðlæg átt með smáskúrum S- og V-lands, en annars þurrt. Hiti 4 til 10 stig að deginum.

Á sunnudag (annar í hvítasunnu): Útlit fyrir austlæga átt. Skýjað og smá væta sunnantil, en annars þurrt. Hiti breytist lítið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×