Íslenski boltinn

„Hélt að einhver hefði stigið á hælinn á mér“

Sindri Sverrisson skrifar
Árni Snær Ólafsson meiddist í uppbótartíma leiksins við FH og öskraði hátt. Um er að ræða mikið áfall fyrir Árna og lið ÍA.
Árni Snær Ólafsson meiddist í uppbótartíma leiksins við FH og öskraði hátt. Um er að ræða mikið áfall fyrir Árna og lið ÍA. Stöð 2 Sport

Fyrirliði og markvörður ÍA í fótbolta, Árni Snær Ólafsson, spilar ekki meira með liðinu í sumar eftir að hafa slitið hásin í leiknum við FH í Pepsi Max-deildinni í gær.

Það kemur því í hlut Króatans Dino Hodzic að verja mark ÍA í næstu leikjum. Hodzic flutti til Íslands árið 2019 og varði mark Kára, sem einnig er frá Akranesi, í 2. deild í fyrra.

Árni Snær segist í samtali við Fótbolta.net nú bíða þess að komast í aðgerð vegna slitnu hásinarinnar en hann meiddist þegar komið var fram í uppbótartíma. Fyrstu viðbrögð hans voru svipuð þeim sem margir hafa lýst eftir að hafa slitið hásin:

„Já, ég hélt að einhver hefði stigið á hælinn á mér,“ sagði Árni Snær við Fótbolta.net.

ÍA missti einnig Sindra Snæ Magnússon meiddan af velli í gær en hann braut tvö rifbein rétt eftir að hafa komið inn á sem varamaður í byrjun seinni hálfleiks. 

FH vann leikinn, 5-1, eftir að hafa skorað tvö síðustu mörk sín framhjá Þórði Þorsteini Þórðarsyni útileikmanni, því ÍA var búið með skiptingar sínar þegar Árni meiddist.


Tengdar fréttir

Svona braut Sindri tvö rifbein

Um korters bið varð á leik FH og ÍA í gær þegar Sindri Snær Magnússon, leikmaður ÍA, meiddist snemma eftir að hafa komið inn á í upphafi seinni hálfleiks. Myndband af því þegar hann meiddist má sjá í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×