Umfjöllun og viðtöl: FH - ÍA 5-1 | Ógæfa dundi yfir Skagamenn og flóðgáttir opnuðust

Sindri Sverrisson skrifar
FH Valur Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ
FH Valur Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ Foto: Hulda Margrét Óladóttir/Hulda Margrét

Skagamenn enduðu með útileikmann í markinu, tveimur mönnum færri, í 5-1 tapinu gegn FH í Kaplakrika í kvöld. Með sigrinum eru FH-ingar á toppi Pepsi Max-deildarinnar með sjö stig en ÍA er með eitt stig eftir þrjár umferðir.

Það gekk heldur betur mikið á í Hafnarfirði í kvöld þar sem bið eftir sjúkrabíl, vegna meiðsla Sindra Snæs Magnússonar, leiddi af sér 15 mínútna uppbótartíma í seinni hálfleiknum.

Á þeim 15 mínútum, og átta mínútum til viðbótar, skoruðu FH-ingar fjögur mörk og tryggðu sér stóran sigur sem þó var ansi torsóttur. Tvö markanna skoruðu þeir gegn Þórði Þorsteini Þórðarsyni, sem vissulega er ekki markvörður.

Hákon Ingi sá rautt og FH-ingar enn á ný manni fleiri

Skagamenn litu ágætlega út framan af leik og Gísli Laxdal Unnarsson kom þeim yfir strax á sjöundu mínútu. Árni Snær Ólafsson var í miklu stuði í markinu og sá við tilraunum FH-inga, og einhverjir gulkæddir hafa eflaust gert sér vonir um að geta losað aðeins um það mikla tak sem FH hefur haft á ÍA síðasta áratug.

Það breyttist hins vegar allt eftir hálftíma leik þegar Hákon Ingi Jónsson fékk tvö gul spjöld og þar með rautt fyrir algjörlega óþörf brot. Hann elti í bæði skiptin boltann eftir of langar sendingar og fór í leikmenn FH, sem í þriðja sinn í sumar urðu manni fleiri í fyrri hálfleik, eins ótrúlegt og það nú er!

Langt hlé vegna meiðsla Sindra

Til að auka á ófarir ÍA þá jafnaði FH strax metin eftir fast skot Péturs Viðarssonar, sem reyndar yfirgaf völlinn skömmu síðar en hann hafði fengið höfuðhögg nokkrum mínútum fyrir markið.

Jóhannes Karl Guðjónsson gerði tvær skiptingar í upphafi seinni hálfleiks til að þétta raðirnar og verja stigið, en eftir nokkrar sekúndur af seinni hálfleik meiddist Sindri. Jóhannes sagði eftir leik að talið væri að rifbein, eitt eða fleiri, hefðu brotnað.

Eftir langt hlé á leiknum blésu FH-ingar til sóknar þegar boltinn mátti rúlla að nýju, en Árni Snær og félagar hans stóðu af sér storminn í drjúga stund. Það var ekki fyrr en að Hjörtur Logi Valgarðsson, sem kom inn á fyrir Pétur, náði skalla sem að Matthías Vilhjálmsson skallaði áfram í markið, að FH komst yfir. Matthías hafði reynt mikið á Árna og uppskar loksins mark.

Eftir þetta var aðeins spurning hve stór sigurinn yrði. Ágúst Eðvald Hlynsson jók muninn eftir skyndisókn og þeir Steven Lennon og Vuk Oskar Dimitrijevic nýttu sér það svo í lokin að Árni Snær var farinn meiddur af velli, og bættu við mörkum framhjá Þórði sem mátti sín lítils. Meiðsli Árna gætu verið alvarleg en Jóhannes Karl kvaðst óttast að hásinin væri slitin.

Af hverju vann FH?

FH-ingar voru manni fleiri í klukkutíma, svipað og gegn Val og Fylki. Þrátt fyrir að ÍA næði að spila þéttan varnarleik þá fundu FH-ingar glufur. Dropinn holar steininn og að lokum tókst FH að komast yfir. Eftir það opnuðust flóðgáttir sem er svo sem skiljanlegt, sérstaklega eftir að Árni meiddist.

Hverjir stóðu upp úr?

FH-ingar þurftu að brjóta upp varnarmúr ÍA og þar stóð Jónatan Ingi Jónsson sig líklega best og var sífellt hættulegur. Matthías Vilhjálmsson var einnig ógnandi í teignum, sérstaklega í loftinu, og Ágúst Eðvald Hlynsson sömuleiðis líflegur að vanda. Varnarlega þurftu FH-ingar ekkert að óttast stóran hluta leiksins.

Árni Snær hafði verið stórgóður áður en hann fór meiddur af velli og átt nokkrar frábærar markvörslur. Skagaliðið varðist lengst af ágætlega en gaf þó færi á sér.

Hvað gekk illa?

Hákon Ingi verður að hemja sig betur en hann gerði í kvöld. Vissulega voru brot hans ekki mjög harkaleg eða gróf, en hann hefði átt að læra af reynslunni eftir fyrra brotið og átta sig á því að FH-ingar biðu auðvitað eftir tækifæri til að losna við hann af velli.

FH hefði mátt nýta færin sín betur en liðið hélt alltaf áfram og að lokum bar sóknarþunginn árangur.

Hvað gerist næst?

Nú er leikið nokkuð þétt og liðin verða næst á ferðinni á mánudagskvöld. FH-ingar sækja þá HK-inga heim inn í Kórinn en ÍA tekur á móti Stjörnunni á Norðurálsvellinum.

Logi: Finnst frekar leiðinlegt að spila alltaf manni fleiri

„Ég man nú ekki eftir að hafa upplifað svona leik áður,“ sagði Logi Ólafsson, hinn þrautreyndi þjálfari FH, eftir þá rússíbanareið sem leikurinn í kvöld var:

„Ég vorkenni náttúrulega Skagamönnum og þessum piltum sem að meiða sig svona illa eins og þeir gerðu. En leikurinn var sjálfsagt mjög skemmtilegur á að horfa og þetta var erfitt fyrir okkur, þrátt fyrir að við lentum í því núna þriðja leikinn í röð að verða manni fleiri. Það er erfitt að sækja þegar liðin liggja svona til baka en þetta var spurning um þolinmæði og okkur tókst að skora,“ sagði Logi.

Þurfa FH-ingar ekki bara að æfa það sérstaklega að vera manni fleiri, fyrst það gerist leik eftir leik?

„Við skulum nú vona að við förum að spila 11 á móti 11. Mér finnst þetta frekar leiðinlegt, að spila leiki þegar þetta verður svona. En ég er ánægður með sigurinn og það framlag sem fékkst frá strákunum í leiknum.“

Langt hlé var á leiknum í upphafi seinni hálfleiks vegna meiðsla Sindra og sjálfsagt afar krefjandi fyrir leikmenn að halda einbeitingu strax þar á eftir:

„Mér fannst við gera það vel. Þetta var löng bið, 14 mínútur. Menn héldu sér heitum og það er virkilega ánægjulegt að sjá hvernig strákarnir tækluðu þetta og unnu þetta saman. Þetta verður ekkert léttara þó að hitt liðið sé manni færra. Það getur vel verið að það sé einfaldara að verjast, en það er erfiðara að sækja gegn þannig liðum. Það er enginn einn maður sem að bjargar því. Þetta er spurning um samvinnu liðsheildar.

Þetta var erfitt. Þeir fóru í 5-3-1 í seinni hálfleik og þetta var eins og á útihátíð í gamla daga í vítateignum, því það voru svo margir saman komnir,“ sagði Logi og brosti.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.