Um­fjöllun og við­töl: Valur - Fylkir 1-0 | Valur aftur á sigur­braut

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur komst aftur á sigurbraut í dag.
Valur komst aftur á sigurbraut í dag. Vísir/Vilhelm

Valskonur komu sér aftur á sigurbraut í dag með eins marks sigri á Fylki. Mist Edvardsdóttir gerði markið sem skildi liðin af og niðurstaðan 1-0 sigur Vals.

Leikurinn fór rólega af stað. Bæði lið sköpuðu sér fá færi fyrstu 20 mínútur leiksins og var sá kafli mjög keimlíkur seinasta leik Vals sem endaði með markalausu jafntefli.

Mist Edvardsdóttir braut ísinn þegar tæplega 25 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik. Dóra María Lárusdóttir átti þar góða fyrirgjöf sem datt á kolinn hennar Mistar sem þakkaði traustið.

Mist Edvardsdóttir var lang líflegasti leikmaður vallarins í fyrri hálfleik, það voru ekki mörg færi í leiknum en þau færi sem litu dagsins ljós var Mist alltaf í boltanum. Það var því áfall fyrir Val að missa hana af velli í fyrri hálfleik eftir árekstur.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum. Valur herjaði vel að marki Fylkis og fengu þær tvö algjör dauðafæri fyrstu 5 mínútur seinni hálfleiks þar sem Bergdís Fanney Einarsdóttir var allt í öllu og litlu mátti muna að Valur bætti við forystu sína.

Valur hélt áfram að herja á Fylki. Bæði Bergdís Fanney og Elín Metta fengu sannkallað dauðafæri til að bæta við marki en báðar brenndu þær af á ævintýralegan máta.

Niðurstaðan 1-0 sigur Vals sem eru komnar aftur á sigurbraut eftir að hafa gert jafntefli í síðustu umferð. 

Af hverju vann Valur?

Varnarleikur Vals var til fyrirmyndar. Þær gáfu nánast enginn færi á sig. Fylkir reyndi því mörg langskot í leiknum sem fóru annað hvort aftur fyrir markið eða í hendurnar á Söndru Sigurðardóttur sem átti góðan leik í marki Vals.

Hverjar stóðu upp úr?

Mist Edvardsdóttir þurfti að fara af velli undir lok fyrri hálfleiks vegna meiðsla. Þrátt fyrri að spila bara fyrri hálfleik gerði hún ekki bara fyrsta mark leiksins heldur var hún lang líflegasti leikmaður Vals á þessum tíma og var stórhættuleg í föstum leikatriðum.

Tinna Brá Magnúsdóttir átti góðan leik í marki Fylkis og var stór partur af því að Valur gerði ekki fleiri mörk. Tinna mætti með mikið sjálfstraust inn í leikinn sem er ekki sjálfgefið fyrir ungan markmann eftir að hafa fengið á sig 9 mörk í seinasta leik.

Bergdís Fanney Einarsdóttir kom inn í byrjunarlið Vals í dag og átti góðan leik. Hún skapaði helling af færum ásamt því að var hættuleg í föstum leikatriðum. 

Hvað gekk illa?

Valur átti í miklum vandræðum með að koma öðru marki í leikinn. Þær fengu dauðafæri eftir dauðafæri en alltaf á einhvern ótrúlegan hátt tókst þeim að klikka á ögurstundu.

Hvað gerist næst?

Fylkir fer heim á Wurth völlinn þar sem Keflavík mætir í heimsókn, næsta miðvikudag klukkan 20:00.

Valur fer til Eyja næsta miðvikudag mætast þar ÍBV og Valur í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 18:00.

Við erum búnar að gleyma 9-0 tapinu

Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis.Vísir

„Upplifunin mín var sú að þetta var jafnteflis leikur en heppnin var með þeim í dag sem tóku með sér stigin þrjú eftir leik," sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, að leik loknum.

„Ákvarðana taka á síðasta þriðjungi hefði mátt vera betri, heilt yfir vorum við að spila vel, boltinn gekk hratt og örugglega milli manna, ásamt því stóðum við vörnina vel sem var uppleggið." 

Mist Edvardsdóttir gerði markið sem skildi liðin af og fannst Kjartani eitt og annað vanta upp á í hans liði þar. 

„Við vorum full fljótar úr stöðu í markinu, þetta var vel gert hjá Val sem komu boltanum á blindu hliðina á okkur sem ég þarf að kíkja á aftur." 

Tinna Brá Magnúsdóttir markmaður Fylkis er að fóta sín fyrstu skref í efstu deild og svaraði vel fyrir sig eftir að hafa fengið á sig 9 mörk í seinasta leik.

„Tinna er mikil íþróttamaður, hún er dugleg og samviskusöm. Ég veit það að tapið sem við erum búinn að gleyma sat í henni, en hún hefur unnið vel í sínum málum með okkur. Hún er 16 ára en er mjög þroskuð og góð stelpa sem vinnur vel í sínum málum."

Kjartan Stefánsson var að lokum mjög ánægður með sitt lið í dag og hrósaði sínu liði mikið fyrir að halda vel í boltann á móti Val. 


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira