Erlent

Bóluefnið frá Pfizer: Sterkara mótefnasvar ef beðið er í tólf vikur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það virðist borga sig að bíða.
Það virðist borga sig að bíða. Getty

Ný bresk rannsókn bendir til þess að sterkara mótefnasvar fáist með því að bíða tólf vikur milli fyrri og seinni skammtsins af Covid-19 bóluefninu frá Pfizer en þær þrjár vikur sem venjulega eru á milli skammta.

Rannsakendur við University of Birmingham hafa komist að þeirri niðurstöðu að með því að bíða tólf vikur fáist þrisvar sinnum betra mótefnasvar en ef beðið er í þrjár vikur.

Vísindamennirnir rannsökuðu blóðsýni 175 einstaklinga 80 ára og eldri eftir fyrri skammtinn og tveimur til þremur vikum eftir seinni skamtinn. 99 fengu seinni skammtinn þremur vikum eftir fyrri skammtinn en 73 biðu í tólf vikur.

Allir reyndust hafa mótefni en magnið var 3,5 falt meira í tólf vikna hópnum. Virkni svokallaðra T-fruma, sem ráðast á sýktar frumur, var minni í tólf vikna hópnum en jafnaðist út þegar frá leið.

Þegar yfirvöld á Bretlandseyjum hófu bólusetningarátak sitt var sú umdeilda ákvörðun tekin að fresta seinni skammtinum til að geta gefið fleirum einn skammt. Niðurstöðurnar nú benda til þess að þetta hafi verið skynsamleg ákvörðun. 

Talið er að bólusetningar hafi komið í veg fyrir 11.700 dauðsföll 60 ára og eldri og 33.000 sjúkrahúsinnlagnir í aldurshópnum 65 ára og eldri.

Guardian sagði frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.