Enski boltinn

Mið­vörður Eng­lands­meistara Man. City skiptir um lands­lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aymeric Laporte hefur bara spilað með Manchester City frá því í janúar 2018 en varð samt enskur meistari í þriðja sinn í gærkvöldi.
Aymeric Laporte hefur bara spilað með Manchester City frá því í janúar 2018 en varð samt enskur meistari í þriðja sinn í gærkvöldi. EPA-EFE/ANDY RAIN

Aymeric Laporte varð í gær enskur meistari með Manchester City í þriðja sinn á fjórum tímabilum. Hann fékk líka góðar fréttir fyrir sumarið.

Laporte er kominn með spænskt vegabréf og getur því spilað með spænska landsliðinu á Evrópumótinu í knattspyrnu í sumar.

Luis Enrique, þjálfari spænska landsliðsins, fékk spænska knattspyrnusambandið til að kanna möguleikana á því að Laporte gæti spilað með spænska landsliðinu.

Leikmaðurinn sjálfur gaf grænt ljós á það og spænska sambandið fékk það síðan í gegn að þessi 26 ára miðvörður fengi spænsk vegabréf á stuttum tíma.

Laporte á reyndar eftir að ganga endanlega frá skiptunum hjá FIFA en það ætti ekki að vera mikið vandamál eftir nýjustu reglubreytinguna hjá alþjóða sambandinu.

Laporte var vissulega fæddur í Frakklandi en hann flutti til Spánar þegar hann var sextán ára gamall. Hann spilaði síðan í átta ár með Athletic Bilbao áður en Manchester City keypti hann fyrir 65 milljónir evra árið 2018.

Laporte hefur verið valinn í landsliðshóp Frakka en hann hefur aldrei fengið landsleik. Það skiptir engu þótt að hann hafi spilað nítján sinnum fyrir franska 21 árs landsliðið.

Laporte sýndi því fyrst áhuga á að sækja um spænskt vegabréf árið 2016 þegar Julen Lopetegui var þjálfari spænska landsliðsins. Seinna það ár þá valdi Didier Deschamps miðvörðinn í franska landsliðið og ekkert meira varð úr því að fá spænska ríkisborgararéttinn.

Deschamps gaf honum aftur á móti aldrei fyrsta landsleikinn. Hann hefur síðan annaðhvort verið ónotaður varamaður eða ekki getað verið með vegna meiðsla.

Samkeppnin um miðvarðarstöðuna í franska landsliðinu er líka svakalega en þar fyrir eru Raphael Varane, Clement Lenglet, Kurt Zouma, Samuel Umtiti og Presnel Kimpembe svo einhverjir séu nefndir.

Spánverjar eru hins vegar ekki í alltof góðum málum. Sergio Ramos hefur verið mikið meiddur og Gerard Pique setti landsliðsskóna upp á hillu eftir HM 2018. Luis Enrique hefur verið að prófa menn eins og Diego Llorente, Inigo Martinez, Eric Garcia og Pau Torres í síðustu leikjum.

Spánverjar spila sinn fyrsta leik á EM á móti Svíum 14. júní næstkomandi en þeir eru líka með Póllandi og Slóvakíu í riðli.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×