Erlent

ESB gerir risasamning við Pfizer um kaup á bóluefni

Kjartan Kjartansson skrifar
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá samkomulaginu við Pfizer í morgun.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá samkomulaginu við Pfizer í morgun. AP/John Thys

Evrópusambandið gæti fengið allt að 1,8 milljarða skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni næstu þrjú árin samkvæmt nýjum risasamningi sem það hefur gert við Pfizer og BioNTech. Ísland tekur þátt í bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins og nýtur því góðs af samningnum.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá samningnum í morgun. Samkvæmt honum kaupir sambandið að minnsta kosti 900 milljónir skammta af bóluefninu og kauprétt á að minnsta kosti jafnmörgum skömmtum í viðbót. Upphaflegur samningur ESB og fyrirtækjanna tveggja hljóðaði upp á 600 milljónir skammta.

Öll aðildarríkin hafa lagt blessun sína yfir samninginn en hann kveður á um að öll innihaldsefni bóluefnisins verði fengin frá Evrópusambandslöndum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Evrópusambandið hefur yfir um 2,6 milljörðum skammta af bóluefnum frá sex framleiðendum að ráða. Boðaði von der Leyen að fleiri samningar yrðu gerðir á næstunni.

Pfizer hafði áður tilkynnt að fyrirtækið myndi afhenda fimmtíu milljónir skammta aukalega á öðrum fjórðungi þessa árs. Þeir skammtar fylla upp í gat vegna meintra vanefnda AstraZeneca. ESB stefndi fyrirtækinu nýlega fyrir að heiðra ekki samning sinn við sambandið um afhendingu bóluefnis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.