Erlent

Skiptar skoðanir á afnámi einkaleyfa á bóluefnum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræðir við Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, á fundi leiðtogaráðsins í Porto.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræðir við Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, á fundi leiðtogaráðsins í Porto. AP/Luis Vieira

Leiðtogar Evrópuríkja eru ósammála um ágæti þess að afnema einkaleyfi á framleiðslu bóluefna gegn kórónuveirunni. Málið er nú til umræðu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Rúmur helmingur aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur lýst yfir stuðningi við tillöguna. Vonast er til þess að með afnámi einkaleyfanna geti fleiri fyrirtæki framleitt bóluefni og selt skammta á lægra verði.

Bandaríkjamenn lýstu yfir stuðningi við hugmyndina á miðvikudagskvöld. Leiðtogar Spánar og Frakklands sögðust styðja hana sömuleiðis fyrir fund leiðtogaráðs ESB í Porto í dag, þó mætti ganga lengra.

„Við fögnum tillögu Bidens um að afnema einkaleyfin en teljum hana ekki ganga nógu langt. Því hefur Spánarstjórn lagt til að Evrópusambandsríkin kalli eftir því að við afnemum bæði einkaleyfin og hröðum á deilingu þekkingar og tækni milli landa,“ sagði Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar.

Þjóðverjar hafa aftur á móti lagst gegn afnámi einkaleyfa. Jens Spahn heilbrigðisráðherra sagði á blaðamannafundi í dag að einkaleyfin stæðu ekki í vegi fyrir hraðari framleiðslu. „Sérstaklega hvað varðar mRNA-bóluefnin. Þetta er ekki eitthvað sem hægt er að flýta með því að fjölga verksmiðjum sem hafa leyfi til framleiðslunnar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×