Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - ÍA 2-0 | Valsmenn hófu titilvörnina með sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrick Pedersen skoraði fyrra mark Vals og lagði það seinna upp.
Patrick Pedersen skoraði fyrra mark Vals og lagði það seinna upp. vísir/hulda margrét

Íslandsmeistarar Vals hófu titilvörn sína með 2-0 sigri á ÍA á Origo-vellinum í kvöld. Patrick Pedersen og Kristinn Freyr Sigurðsson skoruðu mark Valsmanna sem hrukku í gang í seinni hálfleik eftir að hafa verið mjög rólegir í þeim fyrri.

Skagamenn, sem er spáð falli, sýndu tennurnar í kvöld en réðu ekki við Valsmenn þegar þeir settu í annan gír í seinni hálfleik. Ísak Snær Þorvaldsson beit heldur fast en hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 66. mínútu. Eftir það var eftirleikurinn auðveldur fyrir Val.

Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur. Valsmenn voru meira með boltann en ógnuðu marki Skagamanna ekki neitt. Gestirnir voru varkárir framan af fyrri hálfleik en færðu sig framar eftir því sem á hann leið.

Viktor Jónsson komst næst því að skora í fyrri hálfleik þegar skot hans á 35. mínútu fór rétt framhjá. Staðan í hálfleik var markalaus.

Christian Köhler lék vel í fyrsta leik sínum fyrir Val. Hér reynir hann skot að marki ÍA.vísir/hulda margrét

Bæði lið byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti. Brynjar Snær Pálsson átti skot beint á Hannes Þór Halldórsson og Haukur Páll Sigurðsson átti svo skalla sem Árni Snær Ólafsson varði auðveldlega. Sigurður Egill Lárusson átti svo tvö hættulítil skot framhjá.

Á 55. mínútu náðu Valsmenn forystunni. Kaj Leo í Bartalsstovu sendi þá boltann inn fyrir vörn ÍA á Pedersen sem kom boltanum framhjá Árna Snæ og skoraði fyrsta mark Pepsi Max-deildarinnar 2021.

Á 64. mínútu var Kristinn Freyr Sigurðsson hársbreidd frá því að koma Val í 2-0 en skot hans hafnaði í stönginni.

Tveimur mínútum fékk Ísak sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir full hraustlega tæklingu á Hauk Pál.

Það sem eftir lifði leiks voru Valsmenn nær því að bæta við mörkum en Skagamenn að minnka muninn. Sigurður Egill átti skot rétt yfir og Árni Snær varði svo frá Kristni Frey. En heimamenn létu tvö mörk nægja og fögnuðu góðum sigri.

Ísak Snær Þorvaldsson var rekinn af velli um miðjan seinni hálfleik.vísir/hulda margrét

Af hverju vann Valur?

Valsmenn voru daufir í fyrri hálfleik og ógnuðu ekkert. Þeir eru hins vegar með talsvert betra fótboltalið en Skagamenn og um leið og þeir gáfu aðeins kom getumunurinn í ljós.

Hverjir stóðu upp úr?

Pedersen var, eins og allir sóknarmenn Vals, mjög rólegur í fyrri hálfleik. Í þeim seinni sýndi hann hins vegar af hverju hann hefur verið einn besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar undanfarin ár. Daninn skoraði fyrra mark Vals og lagði það seinna upp.

Kaj Leo og Kristinn Freyr voru einnig mjög góðir í seinni hálfleik og nýju mennirnir, Christian Köhler og Johannes Vall, spiluðu vel. Þá var Haukur Páll mjög sterkur á miðjunni.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Vals var ekki merkilegur í fyrri hálfleik. Boltinn gekk hægt og vörn ÍA þurfti ekkert að hafa fyrir hlutunum. En í þeim seinni breyttist takturinn í leiknum.

Ísak Snær gerði samherjum sínum engan greiða þegar hann henti sér í tæklinguna á Hauk Pál um miðjan seinni hálfleikinn og var rekinn út af. Skagamenn voru fastir fyrir í leiknum og allavega í þessu tilviki of æstir.

Hvað gerist næst?

Á laugardaginn mætir ÍA Víkingi á laugardaginn í fyrsta heimaleik sínum. Degi síðar sækir Valur FH heim í stórleik 2. umferðar.

Heimir: Bara eitt lið á vellinum í seinni hálfleik

Valsmenn léku vel í seinni hálfleik.vísir/hulda margrét

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var mun ánægðari með seinni hálfleikinn en þann fyrri gegn ÍA í kvöld.

„Menn lögðu sig fram en vorum ekki nógu góðir á síðasta þriðjungnum. Fyrirgjafir og hlaup fóru ekki saman en við löguðum það í seinni hálfleik. Þá fannst mér bara eitt lið á vellinum og við spiluðum á köflum fínan fótbolta. Það var meiri hraði og flot á boltanum,“ sagði Heimir eftir leikinn.

En hvað fór hann yfir með sínum mönnum í hálfleik?

„Að ná floti á boltann. Við vorum alltof mikið í þessum stuttu sendingum. Þeir voru með þrjá inn á miðjunni og þegar við náðum að skipta boltanum hratt á milli fengum við góðar stöður á köntunum. Við hertum tökin eftir því sem á leið og þetta var sanngjarn sigur. En þetta var erfiður leikur eins og við vissum,“ sagði Heimir.

Hann kvaðst heilt yfir sáttur með frammistöðuna í kvöld.

„Auðvitað vill maður alltaf sjá eitthvað meira. En miðað við fyrsta leik fannst mér þetta allt í lagi og þetta varð betra eftir því sem á leið. Þetta var fyrsti leikur og það er alltaf smá hrollur í mönnum,“ sagði Heimir að lokum.

Jóhannes Karl: Get ekki annað en hrósað mínum mönnum

Skagamönnum er spáð falli úr Pepsi Max-deildinni.vísir/hulda margrét

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var ánægður með fyrri hálfleikinn hjá sínum mönnum gegn Íslandsmeisturum Vals. Róðurinn hafi hins vegar orðið þungur eftir að Ísak Snær Þorvaldsson var rekinn af velli um miðjan seinni hálfleik.

„Við gátum pressað Valsarana nokkrum sinnum framarlega og þvinguðum þá nokkrum sinnum í að sparka boltanum út af. Við ætluðum að láta vaða á þá og vera óhræddir. Fyrri hálfleikurinn var mjög góður. Viktor [Jónsson] komst meira að segja í hættulegt færi á fjærstöng og við fengum einhver hálffæri,“ sagði Jóhannes Karl eftir leik.

„Við vorum sáttir með fyrri hálfleikinn og ætluðum að koma út í þann seinni og gera það sama. Ég get ekki annað en hrósað mínum mönnum fyrir að reyna og gefa allt í þetta.“

Jóhannes Karl var ósáttur við fyrra gula spjaldið sem Ísak Snær fékk.

„Mér fannst dómarinn svolítið aðstoða Valsmennina og sýna þeim full mikla virðingu í spjaldagjöf,“ sagði Jóhannes Karl.

„Mér fannst dómarann dæma vel og hef ekkert út á þá að setja en mér fannst fyrra gula spjaldið sem Ísak fékk, hann kom ekki við Patrick Pedersen sem henti sér upp, lagðist í jörðina og vældi út gult spjald. Haukur Páll [Sigurðsson] gerði svipað og liggur eftir. Mér fannst Birkir Már [Sævarsson] eiga að fá gult spjald fyrir að hjóla í Árna Snæ [Ólafsson] þegar við vorum að komast í hraða sókn. Eftir að við misstum Ísak út af var þetta virkilega erfitt.“

Skagamenn verða án Ísaks í leiknum gegn Víkingum um næstu helgi.

„Við viljum ekki að hann missi af mörgum leikjum því hann skiptir okkur miklu máli. En það kemur alltaf maður í manns stað. Þetta er ekki spurning um einstaklinga. Liðsheildin mun koma okkur áfram,“ sagði Jóhannes Karl.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.