Erlent

Stefna brasilískum yfir­völdum fyrir meið­yrði vegna Spút­nik V

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússar samþykktu notkun á Spútnik V á leifturhraða í fyrra. Vestrænar þjóðir hafa hikað við að veita leyfi fyrir notkun þess og brasilísk höfnuðu því í vikunni.
Rússar samþykktu notkun á Spútnik V á leifturhraða í fyrra. Vestrænar þjóðir hafa hikað við að veita leyfi fyrir notkun þess og brasilísk höfnuðu því í vikunni. Vísir/EPA

Framleiðandi rússneska kórónuveirubóluefnisins Spútnik V ætlar að stefna brasilísku heilbrigðiseftirlitsstofnuninni sem hafnaði beiðni nokkurra ríkja um að flytja efnið inn fyrir meiðyrði. Stjórnendur stofnunarinnar vísa ásökununum um meiðyrði á bug.

Fjórtán brasilísk ríki óskuðu eftir heimild til þess að flytja tugi milljóna skammta af Spútnik V inn. Því hafnaði Anvisa, eftirlitsstofnun Brasilíu í heilbrigðismálum, og vísaði til þess sem hún taldi alvarlegs galla á efninu og vandamálum með gæðastjórnun við framleiðsluna á því.

Gustavo Mendes, yfirmaður lyfjaeftirlits Anvisa, segir að vísbendingar séu um að svonefndar eitlaveirur sem voru notaðar til að framleiða Spútnik V gætu fjölgað sér og valdið aukaverkunum í fólki. Eitlaveirur er tegund veira sem eru stundum notaðar sem svonefndar veirugenaferjur í bóluefnum sem eiga að kalla fram ónæmisviðbragð. Ekki á að nota veirur sem geta fjölgað sér í þessum tilgangi, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Þessu hafnar Denis Logunov sem þróaði Spútnik V hjá Gamaleja-stofnuninni í Rússlandi. Á opinberum Twitter-reikningi Spútnik V var Anvisa sakað um að setja fram rangar og misvísandi yfirlýsingar án þess að hafa gert tilraunir með bóluefnið sjálft. Í því ljósi ætluðu framleiðendur bóluefnisins að höfða meiðyrðamál gegn Anvisa í Brasilíu.

Anvisa brást við yfirlýsingum frá Rússlandi með því að benda á að Gamaleja-stofnunin hafi sjálf bent á að hlutfall eitlaveira sem gæti fjölgað sér væri mögulega hættulega hátt í Spútnik V í rannsókn sinni. Hlutfallið sé 300 sinnum hærra en miðað sé við í reglugerðum.


Tengdar fréttir

Brasilía hafnar rússneska bóluefninu

Lyfjayfirvöld í Brasilíu synjuðu nokkrum þarlendum ríkjum um heimild til þess að flytja inn rússneska bóluefnið Spútnik V gegn kórónuveirunni. Þau telja trúverðug gögn um virkni bóluefnisins skorta og vísa til galla á tilraunum með það. Rússar segja pólitík búa að baki synjuninni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×