Nánar tiltekið er átt við óvenjulega blóðtappa með blóðflögufæð en það er mat EMA að ávinningur af notkun beggja efnanna vegi þyngra en áhættan af aukaverkunum þess. Þetta kemur fram í tilkynningu frá EMA þar sem greint er frá niðurstöðu öryggisnefndar stofnunarinnar sem fundaði í dag.
Einungis sést hjá fólki undir sextugu
Stofnunin hefur undanfarið skoðað hugsanleg tengsl milli sjaldgæfra blóðtappa og notkunar bóluefnis Janssen. Í mati sínu skoðaði öryggisnefndin öll tiltæk gögn um tilfelli blóðtappa sem upp hafa komið í kjölfar bólusetningar með efninu, þar með talið átta tilkynningar í Bandaríkjunum.
Yfir sjö milljónir einstaklinga hafa þar fengið bóluefnið og er því um að ræða hlutfallslega fá tilfelli en notkun þess hefur verið stöðvuð í Bandaríkjunum. Þá hefur verið beðið með notkun bóluefnisins hér á landi og víðar á meðan beðið var niðurstöðu EMA.
Öll tilfellin sem öryggisnefndin skoðaði komu upp hjá fólki undir 60 ára aldri, innan við þremur vikum eftir bólusetningu. Ekki er búið að staðfesta sérstaka áhættuþætti en meirihluti blóðtappanna áttu sér stað hjá konum. Er þetta svipuð niðurstaða og hefur fengist úr athugunum á AstraZeneca bóluefninu en í báðum tilvikum er um að ræða svokallað veiruferjubóluefni.
Ávinningurinn vegi þyngra en áhættan
Fram kemur í tilkynningu EMA að kórónuveirusýkingu fylgi aukin hætta á sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum. Tilkynningar um blóðtappa og blóðflögufæg í kjölfar bólusetningar séu hins vegar mjög sjaldgæfar og heildarávinningurinn af notkun Janssen bóluefnisins vegi þyngra en áhættan af aukaverkunum.
Ekki liggur fyrir hvernig hvernig notkun Janssen bóluefnisins verður háttað hérlendis. Bólusetning með bóluefni AstraZeneca er nú boðin fólki sem er sextugt og eldra en undanskildir eru þeir sem hafa áhættuþætti sem auka hættu á segamyndun.
Fréttin hefur verið uppfærð.