Enski boltinn

Maguire setti ofan í við Woodward á neyðarfundi með leikmönnum United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Maguire í leiknum gegn Burnley á sunnudaginn sem Manchester United vann, 3-1.
Harry Maguire í leiknum gegn Burnley á sunnudaginn sem Manchester United vann, 3-1. getty/Laurence Griffiths

Leikmenn Manchester United voru afar ósáttir við aðkomu félagsins að stofnun ofurdeildarinnar. Fyrirliðinn Harry Maguire lét stjórnarformanninn Ed Woodward heyra það á neyðarfundi með leikmönnum.

United er eitt sex enskra félaga sem eru í hópi stofnmeðlima ofurdeildarinnar ásamt Arsenal, Chelsea, Liverpool, Tottenham og Manchester City.

Daily Mail greinir frá því að leikmenn United hafi verið ósáttir að frétta af stofnun ofurdeildarinnar og þætti félagsins í því í gegnum fjölmiðla.

Woodward hélt neyðarfund með leikmönnum United í gær þar sem skýrði af hverju félagið hefði tekið þátt í að stofna ofurdeildina.

Samkvæmt heimildum Daily Mail voru viðbrögð leikmanna United dræm og þeir voru ósáttir við að knattspyrnustjórinn, Ole Gunnar Solskjær, skyldi þurfa að svara fyrir gjörning eigendanna eftir leikinn.

Mike Keegan, blaðamaður Daily Mail, greindi svo frá því á Twitter að Maguire hafi látið Woodward heyra það fyrir að láta leikmenn ekki vita af fyrirætlunum United.

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, sparaði ekki stóru orðin þegar hann ræddi um Woodward og ofurdeildina á blaðamannafundi í gær.

„Ég hef séð margt á lífsleiðinni. Ég var lögmaður glæpamanna en ég hef aldrei séð fólk haga sér svona. Woodward hringdi í mig á fimmtudaginn til að segja að hann styddi breytingar á Meistaradeildinni. En hann skrifaði síðan undir eitthvað allt annað,“ sagði Ceferin.

Woodward hefur verið stjórnformaður United síðan 2013. Óhætt er að segja að hann sé ekki í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins og vinsældir hans hafa væntanlega ekkert aukist eftir stofnun ofurdeildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.