Fótbolti

Forseti UEFA um Woodward og Agnelli: „Ég var lögmaður glæpamanna en hef aldrei séð fólk haga sér svona“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aleksander Ceferin hellti sér yfir Andrea Agnelli á blaðamannafundi í dag.
Aleksander Ceferin hellti sér yfir Andrea Agnelli á blaðamannafundi í dag. getty/Massimo Bertolini

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, fór vægast sagt hörðum orðum um Andrea Agnelli, forseta Juventus, og Ed Woodward, stjórnarformann Manchester United, á blaðamannafundi í dag og kallaði þá snáka og lygara.

Agnelli og Woodward eru meðal þeirra sem standa að nýrri ofurdeild sem ætlað er að koma í staðinn fyrir Meistaradeild Evrópu.

Ceferin sagði að UEFA og fótboltaheimurinn stæðu sameinuð gegn dellunni sem ofurdeildin væri og að hún væri ekki drifin áfram af neinu nema grægði. Hann sagði einnig að UEFA ætlaði að banna leikmönnum sem spiluðu í ofurdeildinni að leika með landsliðum sínum.

Ceferin hélt svo mikinn reiðilestur um Agnelli og Woodward og sparaði ekki stóru orðin.

„Ég hef aldrei séð neinn ljúga jafn oft og hann. Ég ræddi við hann á laugardaginn og þá sagði hann að fréttirnar um ofurdeildina væru ósannar. Öll mannleg gildi víkja fyrir græðgi,“ sagði Ceferin um Agnelli. Hann sneri sér svo að Woodward.

„Ég hef séð margt á lífsleiðinni. Ég var lögmaður glæpamanna en ég hef aldrei séð fólk haga sér svona. Woodward hringdi í mig á fimmtudaginn til að segja að hann styddi breytingar á Meistaradeildinni. En hann skrifaði síðan undir eitthvað allt annað.“

Ceferin sagði jafnframt að félögin tólf sem standa að baki ofurdeildinni hefðu hreinlega hrækt framan í fótboltaunnendur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.