Fregnir bárust af því í gær að Natanz hefði orðið fyrir rafmagnsleysi og var í fyrstu talið að bilunin hefði verið slys. Kjarnorkustofnun Írans sagði þó fljótt að líklega hafi um tölvuárás verið að ræða og beindust spjótin fljótt að ráðamönnum í Ísrael.
Þá höfðu fjölmiðlar í Ísrael eftir heimildarmönnum sínum að ísraelskir tölvuþrjótar hefðu beitt sér gegn Natanz, sem leiddi til skemmda á skilvindunum. Enn sem komið er liggur þó ekki nákvæmlega fyrir hvernig skemmdirnar komu til en í fyrstu var talað um rafmagnsleysi í rannsóknarstöðinni.
AP fréttaveitan segir að fregnir hafi borist af því að eldar hafi kviknað á svæðinu.
Saeed Khatibzadeh, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, viðurkenndi í viðtali í morgun að þeytivindurnar hefðu skemmst og sagði að Íran myndi svara fyrir sig. Hann vildi ekki segja til um hvernig það yrði gert.
Þá hefur AP eftir Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, að tækjabúnaður í Natanz verði endurnýjaður og endurbættur. IRNA, ríkisfréttaveita Írans, hefur einnig eftir honum að ríkið muni hefna sína á Ísraelum.
Viðræður eiga sér stað á milli Írans og Bandaríkjanna í Vín, þar sem samningamenn ríkjanna ræða hvort og hvernig hægt sé að endurvekja kjarnorkusamkomulagið svokallaða frá árinu 2015.
Sjá einnig: Bandaríkjamenn og Íranir hefja viðræður um kjarnorkusamning
Samkomulagið var gert á milli Írans, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands árið 2015 og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Írans. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Írans að hætta við þróun kjarnorkuvopna og hleypa eftirlitsaðilum í landið.
#UPDATES Iran's foreign ministry says Israel is "of course" behind an attack on the Natanz uranium enrichment plant the previous day, and vows "revenge... in due time" pic.twitter.com/hsnyBV3A5v
— AFP News Agency (@AFP) April 12, 2021
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, rifti kjarnorkusamkomulaginu í raun 2018 þegar hann sleit Bandaríkin frá því og beitti aftur viðskiptaþvingunum gegn Íran.
Ráðamenn í Ísrael eru alfarið andvígir því að samkomulagið verði endurvekið og hefur Benjamín Netanjahú heitið því að Írönum verði ekki leyft að koma upp kjarnorkuvopnum.
Í nóvember í fyrra var Mohsen Fakrizadeh, helsti kjarnorkuvísindamaður Írans, ráðinn af dögum og hafa Ísraelar einnig verið sakaðir um það.