Erlent

Saka Ísraela um skemmdarverk og heita hefndum

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá mynd af skilvindunum sem um ræðir. Myndin var tekin í Natanz af starfsmönnum Alþjóða kjarnorkustofnuninnar árið 2019.
Hér má sjá mynd af skilvindunum sem um ræðir. Myndin var tekin í Natanz af starfsmönnum Alþjóða kjarnorkustofnuninnar árið 2019. AP/Alþjóða kjarnorkustofnunin

Yfirvöld í Íran sökuðu í morgun Ísraela um að hafa framið skemmdarverk á kjarnorkurannsóknarstöðinni Natanz á sunnudaginn. Þar voru nýjar skilvindur, sem notaðar eru til að auðga úran, skemmdar í líklegri tölvuárás og heita Íranar því að þeir muni hefna sín.

Fregnir bárust af því í gær að Natanz hefði orðið fyrir rafmagnsleysi og var í fyrstu talið að bilunin hefði verið slys. Kjarnorkustofnun Írans sagði þó fljótt að líklega hafi um tölvuárás verið að ræða og beindust spjótin fljótt að ráðamönnum í Ísrael.

Þá höfðu fjölmiðlar í Ísrael eftir heimildarmönnum sínum að ísraelskir tölvuþrjótar hefðu beitt sér gegn Natanz, sem leiddi til skemmda á skilvindunum. Enn sem komið er liggur þó ekki nákvæmlega fyrir hvernig skemmdirnar komu til en í fyrstu var talað um rafmagnsleysi í rannsóknarstöðinni.

AP fréttaveitan segir að fregnir hafi borist af því að eldar hafi kviknað á svæðinu.

Saeed Khatibzadeh, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, viðurkenndi í viðtali í morgun að þeytivindurnar hefðu skemmst og sagði að Íran myndi svara fyrir sig. Hann vildi ekki segja til um hvernig það yrði gert.

Þá hefur AP eftir Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, að tækjabúnaður í Natanz verði endurnýjaður og endurbættur. IRNA, ríkisfréttaveita Írans, hefur einnig eftir honum að ríkið muni hefna sína á Ísraelum.

Viðræður eiga sér stað á milli Írans og Bandaríkjanna í Vín, þar sem samningamenn ríkjanna ræða hvort og hvernig hægt sé að endurvekja kjarnorkusamkomulagið svokallaða frá árinu 2015.

Sjá einnig: Bandaríkjamenn og Íranir hefja viðræður um kjarnorkusamning

Samkomulagið var gert á milli Írans, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands árið 2015 og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Írans. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Írans að hætta við þróun kjarnorkuvopna og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, rifti kjarnorkusamkomulaginu í raun 2018 þegar hann sleit Bandaríkin frá því og beitti aftur viðskiptaþvingunum gegn Íran.

Ráðamenn í Ísrael eru alfarið andvígir því að samkomulagið verði endurvekið og hefur Benjamín Netanjahú heitið því að Írönum verði ekki leyft að koma upp kjarnorkuvopnum.

Í nóvember í fyrra var Mohsen Fakrizadeh, helsti kjarnorkuvísindamaður Írans, ráðinn af dögum og hafa Ísraelar einnig verið sakaðir um það.


Tengdar fréttir

Banda­ríkja­menn og Íranir hefja við­ræður um kjarn­orku­samning

Óformlegar viðræður milli Bandaríkjanna og Íran til þess að endurvekja kjarnorkusamning ríkjanna frá 2015 munu hefjast á þriðjudag í Vín. Yfirvöld í Teheran hafa neitað að setjast formlega við samningsborðið en Bandaríkin segja fundinn marka jákvætt skref.

Umfangsmiklar framkvæmdir við leynilega kjarnorkustöð í Ísrael

Umfangsmiklar framkvæmdir standa nú yfir við leynilega kjarnorkurannsóknarstöð í Ísrael. Gervihnattamyndir sýna að framkvæmdirnar fara fram nærri gömlum kjarnakljúfi sem Ísraelar notuðu til að framleiða kjarnorkuvopn sín, sem þeir hafa aldrei formlega opinberað.

Kim heldur þróun kjarnorkuvopna áfram

Yfirvöld einræðisríkisins Norður-Kóreu héldu þróun kjarnorkuvopna og eldflauga til að bera þau vopn, áfram í fyrra. Það var gert þrátt fyrir alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn einræðisríkinu vegna þessara þróunarverkefna.

Evrópskir ráðamenn neituðu að hitta Pompeo

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hætti í skyndi við síðustu embættisferð sína í dag, eftir að ráðamenn og embættismenn í Evrópusambandsinu neituðu að hitta hann. Ástæðan er sögð vera árásin á þinghús Bandaríkjanna í síðustu viku og aðkoma Donalds Trump, forseta, að henni.

Úranauðgun Íran hafin

Yfirvöld í Íran segja 20 prósenta úranauðgun vera hafna innan landamæra ríkisins. IRNA fréttaveitan sem er í eigu ríkisins segir að Hassan Rouhani, forseti, hafi gefið skipunina í dag. Auðgunin fer fram í leynilegu neðanjarðarbyrgi sem kallast Fordo.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×