Íslenski boltinn

Vill tvo leik­menn til við­bótar en ekki til­búinn að sækja hvern sem er

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar segir KR-inga vera leita að erlendum leikmönnum.
Rúnar segir KR-inga vera leita að erlendum leikmönnum. Stöð 2 Sport

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu, væri til í að fá tvo leikmenn til viðbótar í lið sitt en vill vanda valið. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 um helgina.

Í viðtalinu kom fram að Rúnar væri til í að styrkja KR-liðið með tveimur leikmönnum, þá helst varnar- eða miðjumönnum. Fram á við telur hann lið sitt vera nægilega vel mannað. Rúnar er þó ekki tilbúinn að taka sénsinn á hverjum sem er og segir að leikmennirnir verði að styrkja annars öflugan leikmannahóp KR.

Hann játti því að KR-ingar væru aðallega að leita út fyrir landsteinana.

„Ég vil vera viss í minni sök, það er ekki saman að sækja útlending sem sleppur svo ekki í lið og það kostar okkur peninga. Við eigum ekki að taka pláss af íslenskum strákum fyrir leikmenn sem eru að berjast um það að komast í liðið. Erlendir leikmenn eiga að vera með bestu leikmönnum liðsins,“ sagði Rúnar í viðtalinu.

Rúnar sagði einnig að ekki hefði komið til greina að bjóða Almarri Ormarssyni samning þó hann hafi æft með félaginu í tvo mánuði.

Almarr Ormarsson í baráttunni við tvo leikmenn Cork City á sínum tíma.vísir/luke duffy

„Almarr var að standa sig gríðarlega vel en ég hafði ekki pláss fyrir hann. Ég vil ekki vera fá Almarr til mín og láta hann sitja á bekknum í 15 leiki og koma inn í sjö leikjum, eða þá byrja honum í þremur og koma honum inn í átta. Hann á að vera að spila finnst mér og þá vil ég frekar eiga þetta pláss fyrir yngri stráka,“ sagði Rúnar aðspurður út í þennan fyrrum leikmann KR sem samdi við Val fyrir tímabilið.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni hér að neðan. Viðtalið við Rúnar byrjar eftir tæplega hálftíma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.