Erlent

Ríkisstjórinn sagður hafa hyglað fjölskyldu við skimun

Kjartan Kjartansson skrifar
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, er sagður hafa lagt fyrir heilbrigðisstarfsfólk ríkisins að veita ættingjum hans og vinum forgang í skimun.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, er sagður hafa lagt fyrir heilbrigðisstarfsfólk ríkisins að veita ættingjum hans og vinum forgang í skimun. AP/Brendan McDermid

Fjölskylda Andrews Cuomo, ríkisstjóra New York, og aðrir vel tengdir einstaklingar fengu forgang í skimun fyrir kórónuveirunni við upphaf faraldursins þar í fyrra. Á sama tíma áttu almennir borgarar í ríkinu erfitt með að komast í skimun.

Háttsettur læknir ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisstarfsmenn voru sendir heim til ættingja Cuomo og vildarvina, að sögn heimildarmanna Washington Post. Rannsóknastofa ríkisins greindi sýnin svo samstundis. Á þeim tíma annaði rannsóknastofan aðeins nokkur hundruð sýnum á dag. Nítján milljónir manna búa í New York.

Á meðal þeirra sem eru sagðir hafa fengið slíkan forgang í skimun er Chris Cuomo, þáttastjórnandi á sjónvarpsstöðinni CNN, og bróðir ríkisstjórans. Læknir var sendur heim til hans á Hamptons-svæðinu skammt frá New York-borg og tók sýni úr honum og fjölskyldu hans. Þáttastjórnandinn greindist með Covid-19 í mars í fyrra.

Lög í New York banna embættismönnum að nýta sér stöðu sína til að veita sjálfum sér eða öðrum forgang. Sumir embættismenn eru sagðir hafa verið uggandi yfir því að heilbrigðisstarfsmönnum væri sagt að veita ættingjum Cuomo forgang í skimun fram yfir almenna borgara.

Talsmaður Cuomo ber því við að á upphafsdögum faraldursins hafi mikil áhersla verið lögð á smitrakningu og heilbrigðisstarfsmenn hafi stundum verið sendir heim til fólks sem var talið smitað af Covid-19 til að taka sýni. Á meðal þeirra sem hafi fengið slíkar heimsóknir hafi verið almennir borgarar, ríkisþingmenn, fréttamenn, starfsmenn ríkisins og fjölskyldur þeirra.

Cuomo ríkisstjóri á fyrir í vök að verjast vegna ásakana fjölda kvenna um að hann hafi áreitt þær kynferðislega. Leiðtogar Demókrataflokksins, sem Cuomo tilheyrir, á ríkisþingi New York og á Bandaríkjaþingi hafa hvatt Cuomo til að segja af sér vegna þeirra. Einnig sætir stjórn hans gagnrýni fyrir að hafa reynt að hylma yfir raunverulegan fjölda látinna á hjúkrunarheimilum í faraldrinum.


Tengdar fréttir

Þrýstingur á ríkisstjóra New York um að segja af sér eykst

Tveir öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins frá New York bættust í hóp flokksmanna sem hvetja Andrew Cuomo, ríkisstjóra ríkisins, um að segja af sér í gær. Sjö konur hafa nú stigið fram og sakað Cuomo um kynferðislega áreitni eða óviðeigandi hegðun.

Hefja rannsókn til embættismissis á ríkisstjóra New York

Dómsmálanefnd ríkisþingsins í New York í Bandaríkjunum rannsakar nú hvort að Andrew Cuomo, ríkisstjóri, hafi gerst sekur um embættisbrot. Sex konur hafa stigið fram og sakað ríkisstjórann um kynferðislega áreitni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×