Erlent

Þrýstingur á ríkisstjóra New York um að segja af sér eykst

Kjartan Kjartansson skrifar
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. Vísir/EPA

Tveir öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins frá New York bættust í hóp flokksmanna sem hvetja Andrew Cuomo, ríkisstjóra ríkisins, um að segja af sér í gær. Sjö konur hafa nú stigið fram og sakað Cuomo um kynferðislega áreitni eða óviðeigandi hegðun.

Chuck Schumer, leiðtogi þingmeirihluta demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, og Kirsten Gillibrand, öldungadeildarþingmaður, kölluðu bæði eftir því að Cuomo stigi til hliðar í gær. Áður hafði hópur fulltrúadeildarþingmanna demókrata frá New York, þar á meðal Alexandria Ocasio-Cortez, gert það sama.

„Vegna fjölda trúverðugra ásakana um kynferðislega áreitni og misferli er það ljóst að Cuomo ríkisstjóri hefur tapað trausti meðstjórnenda sinna og íbúa New York,“ sögðu Schumer og Gillibrand í sameiginlegri yfirlýsingu.

Þrátt fyrir það situr Cuomo fastur við sinn keip og segist ekki ætla að segja af sér. Hann sagði í gær að það væri „hættulegt“ að stjórnmálamenn bæðu aðra um að segja af sér án þess að hafa allar staðreyndir máls, að því er Reuters-fréttastofan greinir frá. Ríkisstjórinn hefur beðist afsökunar á sumum þeim atvikum sem konurnar hafa lýst en fullyrðir að aðrar ásakanir séu uppspuni.

Á sjötta tug ríkisþingmanna Demókrataflokksins hafa einnig hvatt Cuomo til að segja af sér. Dómsmálanefnd ríkisþingins hóf rannsókn á mögulegum embættisbrotum Cuomo í vikunni. Sú rannsókn gæti leitt til kæru og jafnvel embættismissis.

Auk ásakanna kvennanna situr Cuomo undir harðri gagnrýni fyrir að hafa reynt að fela raunverulegan fjölda látinna á hjúkrunarheimilum í New York í kórónuveirufaraldrinu. Ríkisstjóranum hafði áður verið hampað fyrir afgerandi viðbrögð við faraldrinum.


Tengdar fréttir

Hefja rannsókn til embættismissis á ríkisstjóra New York

Dómsmálanefnd ríkisþingsins í New York í Bandaríkjunum rannsakar nú hvort að Andrew Cuomo, ríkisstjóri, hafi gerst sekur um embættisbrot. Sex konur hafa stigið fram og sakað ríkisstjórann um kynferðislega áreitni. 

Ekkert fararsnið á ríkisstjóra þrátt fyrir röð ásakana

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segist ekki ætla að segja af sér þrátt fyrir að hafa misst stuðning leiðtoga Demókrataflokksins í ríkinu. Fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað Cuomo um kynferðislega áreitni. Stjórn Cuomo er einnig sökuð um að hafa reynt að hylma yfir fjölda dauðsfalla á hjúkrunarheimilum í kórónuveirufaraldrinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.