Veður

„Litlar líkur á öðrum eins sumardegi á Austfjörðum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin á Austurland sumarið 2019 en mjög hlýtt var í landshlutanum í gær líkt og komið væri sumar.
Myndin er tekin á Austurland sumarið 2019 en mjög hlýtt var í landshlutanum í gær líkt og komið væri sumar. Vísir/Vilhelm

Það hefur kólnað talsvert yfir landinu „og eru litlar líkur á öðrum eins sumardegi á Austfjörðum þrátt fyrir að veðrið sé í stórum dráttum svipað,“ að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í gær var afar hlýtt á landinu og þá sérstaklega á Austurlandi þar sem  mældist yfir tuttugu stiga hiti á tilteknum stöðum.

Áfram er spáð vestlægri átt og súld eða rigningu á vesturhelmingi landsins en þurrt austantil. Þá snýst vindur í kvöld og nótt í vestanátt og mun stytta að mestu upp í bili en á morgun er útlit fyrir skúrir eða slydduél, einkum eftir hádegi.

„Það verður áfram vætusamt sunnan og vestantil á sunnudag en eftir helgina verður vetrarlegt um að litast með hita í kringum frostmark og snjókomu eða slyddu á láglendi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Suðvestlæg átt 8-13 í dag, en hvassara í kringum Tröllaskaga. Rigning með köflum, en þurrt á A-landi. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast A-til.

Vestlægari vindátt um tíma í nótt og dregur mikið úr úrkomu og kólnar en hægt vaxandi suðvestanátt eftir hádegi og skúrir eða slydduél vestantil. Hiti 2 til 8 stig.

Á laugardag (vorjafndægur):

Vestlæg átt 5-13 m/s. Þurrt að mestu um morguninn en súld eða rigning vestantil eftir hádegi. Bætir í úrkomu um kvöldið, en lengst af þurrt og bjart á austanverðu landinu. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag:

Sunnan og síðar suðvestan 8-15 m/s. Rigning sunnan og vestantil en bjartviðri norðan og austantil. Hiti 2 til 7 stig. Vestlægari og talsverð eða mikil rigning um landið vestanvert um kvöldið og kólnar í veðri.

Á mánudag og þriðjudag:

Hvöss suðvestanátt með éljum, en léttskýjað NA- og A-lands. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir stífa suðvestanátt með éljum en austlæga átt og snjókomu um landið norðanvert í fyrstu. Frost 0 til 6 stig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.