Erlent

Álit Breta á Meg­han og Harry aldrei verið verra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Harry og Meghan sjást hér í viðtalinu við Opruh en það var sýnt á CBS sjónvarpsstöðinni í vikunni. 
Harry og Meghan sjást hér í viðtalinu við Opruh en það var sýnt á CBS sjónvarpsstöðinni í vikunni.  Getty/Harpo Productions/Joe Pugliese

Álit bresks almennings á hjónunum Meghan Markle og Harry prins hefur aldrei verið eins slæmt og núna eftir að umdeilt viðtal Opruh Winfrey við hjónin var sýnt. Viðtalið vakti heimsathygli þar sem þau greindu meðal annars frá því að fjölskyldumeðlimir Harry hafi lýst áhyggjum yfir litarhafti sonar þeirra áður en hann fæddist.

Í viðtalinu lýsti Meghan því einnig að hún hafi glímt við sjálfsvígshugsanir á tímabili og að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafi henni ekki verið hjálpað af starfsmönnum hallarinnar.

Viðtalið er umtalað og hafa margir lýst yfir stuðningi við hjónin og gagnrýnt bresku konungsfjölskylduna og höllina. Viðtalið virðist þó hafa fallið í grýttari jarðveg meðal Breta samkvæmt nýrri könnun. Þar kemur fram að 48 prósent þátttakenda líti prinsinn neikvæðum augum.

Til samanburðar hefur viðhorf almennings til Elísabetar drottningar, eða um 80 prósent, og hertogans og hertogaynjunnar af Cambridge ekki breyst frá síðustu könnun sem var gerð, en viðhorf til þeirra er fremur jákvæðara en til Harry og Meghan.

Þetta er í fyrsta sinn sem fleiri líta Harry neikvæðum augum en jákvæðum samkvæmt tölum frá YouGov og hefur stuðningur við hann fallið um 15 stig frá því í byrjun mars.

58 prósent þátttakenda í könnuninni svöruðu því að þeir litu Meghan neikvæðum augum. Það er þrettán stigum meira en fyrir tíu dögum síðan. Könnunin virðist þó benda til þess að skoðanir fólks séu mismunandi á milli aldurshópa.

55 prósent 18-24 ára sögðust líta hertogaynjuna af Sussex jákvæðum augum, en aðeins 32 prósent neikvæðum. Sama á við um Harry, 59 prósent í sama aldurshópi líta hann jákvæðum augum en 28 prósent neikvæðum.

Fólk yfir 65 ára aldri virðist ekki jafn jákvætt í garð hjónanna. Lang flest þeirra líta hjónin neikvæðum augum, 69 prósent líta Harry neikvæðum augum og 83 prósent líta Meghan neikvæðum augum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×