Erlent

Morgan stendur við orð sín um Meghan og bætir í

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Piers Morgan á ferðinni í London í morgun.
Piers Morgan á ferðinni í London í morgun. Getty/MWE/GC Images

Fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan, sem hætti í gær sem þáttastjórnandi í Good Morning Britain á ITV-sjónvarpsstöðinni vegna ummæla sinna um Meghan Markle, segist standa við það sem hann sagði.

Daginn áður hafði CBS-sjónvarpsstöðin sýnt viðtal Opruh Winfrey við Meghan og eiginmann hennar, Harry Bretaprins, en margt af því sem kom fram í viðtalinu hefur vakið mikla athygli.

Viðtalið var til umræðu í Good Morning Britain á mánudagsmorgun. Þá lýsti Morgan því yfir að hann tryði ekki orði af því sem Meghan hefði sagt í viðtalinu.

„Mér finnst þessi árás hennar á konungsfjölskylduna fyrirlitleg,“ sagði Morgan meðal annars.

Í þættinum í gærmorgun ítrekaði Morgan síðan að hann ætti erfitt með að trúa Meghan. Í gærkvöldi var síðan greint frá því að Morgan hefði ákveðið að hætta í Good Morning Britain en rúmlega 41 þúsund kvartanir höfðu þá borist eftirlitsaðilanum Ofcom vegna ummæla Morgans.

Morgan tísti í morgun þegar Good Morning Britain var við það að hefjast og sagðist þá standa við orð sín um Meghan.

„Ég hef haft tíma til að hugsa um þessa skoðun mína og ég stend við hana. Ef þú trúðir Meghan, allt í lagi. Tjáningarfrelsið er hæð sem ég mun glaður deyja á. Takk fyrir alla ástina og hatrið. Ég ætla nú að verja meiri tíma með skoðunum mínum,“ tísti Morgan og deildi með mynd af kvóti í Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, um tjáningarfrelsið.

Morgan bætti síðan í þegar hann ræddi við fjölmiðla fyrir utan heimili sitt áðan.

„Ég trúi nánast engu sem kemur út úr henni [Meghan] og ég held að skaðinn sem hún hafi valdið konungdæmin og drottningunni á meðan Filippus prins liggur á spítala sé gríðarlegur og hreinlega fyrirlitlegur. Ef ég á að falla á sverð mitt fyrir að hafa heiðarlega skoðun á Meghan Markle og þeim þvættingi og skammaryrðum sem hún fór með í þessu viðtali þá verður að hafa það,“ sagði Morgan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.