Erlent

Piers Morgan móðgaðist og strunsaði út úr stúdíóinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Piers Morgan fjölmiðlamaður var heldur ósáttur við kollega sinn í þættinum Good Morning Britain í morgun.
Piers Morgan fjölmiðlamaður var heldur ósáttur við kollega sinn í þættinum Good Morning Britain í morgun. Getty/Frazer Harrison

Piers Morgan, einn þáttastjórnanda Good Morning Britain á ITV-sjónvarpsstöðinni, strunsaði út úr myndverinu í beinni útsendingu í morgun í kjölfar umræðu um hið margumtalaða viðtal Opruh Winfrey við Meghan Markle og Harry Bretaprins.

Alex Beresford, annar þáttastjórnandi Good Morning Britain, var að ræða umfjöllun fjölmiðla um Meghan og skaut föstum skotum á Morgan sem hefur í gegnum tíðina ekki farið leynt með það að honum þyki ekki mikið til Meghan koma.

Þannig fór Morgan mikinn í Good Morning Britain í gærmorgun, daginn eftir að viðtalið var frumsýnt í Bandaríkjunum. Hann sagðist svo reiður eftir að hafa horft á viðtalið að það syði á honum. Þá hefði honum orðið óglatt.

„Þau drulla yfir konungsfjölskylduna okkar í tvo tíma samfleytt, þau drulla yfir konungsríkið, allt það sem Elísabet drottning hefur unnið svo hart að og allt er þetta gert á meðan Filippus prins liggur á spítala,“ sagði Morgan meðal annars.

Ekki verður annað sagt en að kollega hans Beresford hafi blöskrað orð hans í þættinum í gær þar sem hann tók sig til í morgun og lét Morgan heyra það.

„Ég skil að þér líkar ekki við Meghan Markle, þú hefur sagt það mjög skýrt nokkrum sinnum í þessum þætti,“ sagði Beresford og vísaði svo í fullyrðingar Morgan frá því fyrir nokkrum árum um að hann og Meghan hefðu átt í persónulegu sambandi en hún síðan hætt að tala við hann eftir að hún og Harry fóru að vera saman.

„Hún má hætta að tala við þig ef hún vill það. Hefur hún sagt eitthvað um þig síðan hún hætti að tala við þig? Ég held ekki en þú heldur samt áfram að drulla yfir hana,“ sagði Beresford.

Á þessum tímapunkti móðgaðist Morgan og sagðist hafa fengið nóg af þessu. Hann stóð upp og labbaði út en Beresford var ekki hættur.

„Hann hegðar sér algjörlega djöfullega. Afsakið mig en Piers Morgan eys út úr sér fúkyrðaflaumi reglulega og við þurfum að sitja og hlusta á það. Það var ótrúlega erfitt að horfa á þáttinn frá 6:30 til sjö í gær,“ sagði Beresford.

Morgan kom skömmu síðar aftur í settið og héldu umræður um viðtalið áfram að því er fram kemur í frétt Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.