Veður

Ný vika heilsar með suð­austan­átt og rigningu

Atli Ísleifsson skrifar
Von er á næstu lægð strax annað kvöld.
Von er á næstu lægð strax annað kvöld. Vísir/Vilhelm

Eftir hægviðri helgarinnar heilsar ný vika okkur með suðaustanátt og rigningu, víða átta til fimmtán metrum á sekúndu. Búast má við talsverðri rigningu fram eftir degi á Suðausturlandi en lengst af úrkomulítið norðaustanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að á eftir skilum fylgi síðan síðan fremur hæg suðvestanátt og skúrir suðvestantil á landinu. Áfram verði nokkuð hlýtt í veðri miðað við árstíma.

„Útlit er síðan fyrir að dagurinn í dag leggi línurnar fyrir vikuna og nokkur lægðagangur verði en von er á næstu lægð að landinu strax annað kvöld með norðlægum áttum með rigningu eða slyddu sunnan- og austantil en snjókomu á Norður- og Vesturlandi á miðvikudag og heldur lækkandi hitastigi.“

Spákort fyrir hádegið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Hæg breytileg átt og skýjað með köflum en vaxandi norðanátt eftir hádegi. Norðan 8-15 og rigning eða slydda á austanverðu landinu um kvöldið en él við norðurströndina. Hiti 0 til 4 stig yfir daginn en frost 0 til 6 stig um kvöldið.

Á miðvikudag: Norðan og norðaustan 8-15 m/s og slydda eða snjókoma einkum um norðan- og austanvert landið. Dregur úr vind austantil síðdegis en hvessir og bætir í úrkomu á Vestfjörðum. Hiti í kringum frostmark en vægt frost norðvestantil.

Á fimmtudag: Ákveðin norðaustlæg átt og slydda eða snjókoma á norðvestanverðu landinu en hægari vindur og stöku skúrir syðra. Austanátt og dálítil rigning á austanverðu landinu. Hiti um og yfir frostmarki.

Á föstudag: Útlit fyrir norðaustanátt og kólnandi veður. Él norðan- og austantil en annars úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

Á laugardag: Áframhaldandi norðaustanátt og éljagangur á norðanverðu landinu en úrkomulítið austanlands. Hiti í kringum frostmark.

Á sunnudag: Útlit fyrir norðaustlæg átt og él á víð og dreif.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.