Erlent

Verstu vetrarhörkur í manna minnum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Minnst 21 hefur látist í öflugum vetrarstormum í Bandaríkjunum. Íslensk kona í Texas segir þetta verstu vetrarhörkur sem fólk man eftir á svæðinu.

Á meðan fordæmalaust vetrarveður gengur yfir suðurhluta Bandaríkjanna er ekki snjókorn að sjá hér í Reykjavík. Eitthvað virðist þetta öfugsnúið en samkvæmt Veðurstofunni ætti hiti að verða yfir frostmarki svo gott sem alla vikuna.

Sömu sögu er ekki að segja af Bandaríkjunum. Veðrið hefur leikið rafmagnskerfi Texas grátt og meira en milljón hefur verið án rafmagns. Yfirvöld í ríkinu hafa sætt gagnrýni vegna hins laskaða kerfis.

Það var einmitt rafmagnslaust hjá Hildi Heimisdóttur Salinas, sem býr í Coppell á Dallas-svæðinu, þegar fréttastofa náði tali af henni.

Syrti í álinn á sunnudagskvöld

„Það kom fallegt vetrarveður á sunnudaginn og við vöknuðum með snjó og skemmtilegheit. Þá var rafmagnið á og við gátum farið út með krakkana að leika. Svo syrti í álinn á sunnudagskvöld og það kom mikill stormur og rafmagnið fór af hjá okkur laust eftir miðnætti. Við vorum án rafmagns í 14 klukkustundir á meðan það var allt að 18 stiga frost úti,“ segir Hildur

Hún segir nokkra reiði ríkja í garð stjórnvalda og orkufyrirtækja. „Já, fólk er mjög ósátt við hvað svörin eru loðin. Orkufyrirtækin hafa verið að tala um að við ættum að skiptast á að vera rafmagnslaus en sumir hafa ekki fengið rafmagn í heilan sólarhring en aðrir hafa alls ekkert misst rafmagn.“

Og það snjóar af krafti víðar en í Bandaríkjunum. Í Sýrlandi olli snjókoman töluverðum samgöngutruflunum sem og í Aþenu, þar sem borgarbúar skelltu sér í snjókast á ströndinni.


Tengdar fréttir

Beina spjótum sínum að umhverfisvænum orkugjöfum

Tugir milljóna Bandaríkjamanna undirbúa sig nú fyrir áframhaldandi kuldakast með tilheyrandi vetrarveðri. Fordæmalaust veður hefur gengið yfir suður- og miðhluta Bandaríkjanna á undanförnum dögum og hafa íhaldsmenn ranglega beint spjótum sínum að umhverfisvænum orkugjöfum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×