Erlent

Trump-lestin rúllar áfram en þingmenn vilja frekari rannsóknir

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður fyrir embættisbrot tvisvar sinnum.
Donald Trump er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður fyrir embættisbrot tvisvar sinnum. AP/Carolyn Kaster

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sem var sýknaður af ákæru um embættisbrot um helgina, er enn með sterkt tak á Repúblikanaflokknum þó hann komi ekki óskaddaður frá málinu.  

Bæði Demókratar og Repúblikanar segja þörf á frekari rannsóknum á árásinni á þinghúsið þann 6. janúar.

Fimm dóu í árásinni á þinghúsið og þar á meðal einn lögregluþjónn. Tveir aðrir lögregluþjónar sem komu að aðgerðum í þinghúsinu hafa í kjölfarið framið sjálfsvíg og fjölskyldur þeirra vilja að dauðsföll þeirra verði skráð til komin vegna starfs þeirra.

Trump er nú venjulegur borgari og hefur verið sviptur vernd forsetaembættisins frá lögsóknum. Það ítrekaði Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, til að mynda í ræðu sinni eftir að Trump var sýknaður.

Í ræðunni fór McConnell hörðum orðum um forsetann fyrrverandi og sagði hann í raun bera ábyrgð á árásinni á þinghúsið, þó McConnell sjálfur hefði greitt atkvæði gegn því að sakfella hann.

„Hann hefur ekki komist upp með neitt ennþá,“ sagði McConnell meðal annars í ræðu sinni.

Aðrir þingmenn beggja flokka virðast sammála.

Í fréttaþáttum gærdagsins sögðust öldungadeildarþingmenn beggja flokka sammála um að fram þyrfti að fara ítarleg rannsókn á viðburðum 6. janúar og aðdraganda. Þeir voru einnig sammála um að Trump hefði ítrekað dreift fölskum ásökunum varðandi forsetakosningarnar í nóvember.

Lindsey Graham, sem hefur lengi verið ötull bandamaður Trumps, sagði að stofna þyrfti rannsóknarnefnd eins og gert var í kjölfar árásanna þann 11. september 2001. Það þyrfti til að fá á hreint hvað hefði gerst í janúar og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að það kæmi aftur fyrir.

Graham staðhæfði í sjónvarpsviðtali í gær að Repúblikanaflokkurinn þyrfti nauðsynlega á Trump að halda. Hann sagði sömuleiðis í gær að Lara Trump, tengdadóttir forsetans, ætti að reyna að taka sæti eins öldungadeildarþingmanns sem greiddi atkvæði með sakfellingu Trumps.

Pólitísk framtíð Trumps þykir þó nokkuð óljós þessa dagana. Ekki er á hreinu hvaða málefni hann mun tileinka sér, fyrir utan það að Trump hefur heitið því að berjast fyrir umbótum á kosningalögum.

Það liggur fyrir að Trump á töluvert mikið af peningum í pólitískum sjóðum sínum og er talið að hann muni beita þeim sjóðum gegn óvinum sínum innan Repúblikanaflokksins. Það er segja, gegn þingmönnum sem greiddu atkvæði gegn honum í ákæruferlinu.

Eins og fram hefur komið greiddu sjö þingmenn Repúblikanaflokksins atkvæði með Demókrötum um helgina. Það voru þau Ben Sasse, Mitt Romney, Richard Burr, Susan Collins, Lisa Murkowski, Pat Toomey og Bill Cassidy.

Tveir þeirra þingmanna eru að setjast í helgan stein að núverandi kjörtímabilum sínum loknum og þrír þeirra eru ekki á leið í kosningabaráttu fyrr en árið 2026. Markowski er sú eina sem þarf í kosningabaráttu á næsta ári.

Hún gaf í gær út tilkynningu þar sem hún gerði grein fyrir atkvæði sínu. Þar sagði hún að ef það að ljúga um kosningasvik í marga mánuði og senda stuðningsmenn sína að þinghúsinu til að stöðva störf þingsins væri ekki tilefni til ákæru fyrir embættisbrot og sakfellingu, vissi hún ekki hvað væri tilefni til þess.

Repúblikanar í heimaríkjum þessara sjö þingmanna sem nefndir eru hér að ofan hafa brugðist reiðir við atkvæðum þeirra. Flokkurinn í Louisiana ávítti til að mynda Cassidy strax um helgina og í bæði Norður-Karólínu og Pennsylvaníu gáfu flokksmenn út tilkynningar þar sem Burr og Toomey voru harðlega gagnrýndir.

Í umfjöllun AP fréttaveitunnar segir að deilur innan Repúblikanaflokksins séu miklar um þessar mundir. Útlit sé hins vegar fyrir að Trump-liðar séu eða hafi jafnvel unnið þær deilur. Sérstaklega ef mið sé tekið af könnunum sem sýna að Trump nýtur gífurlegra vinsælda meðal kjósenda Repúblikanaflokksins og að stór hluti þeirra segist trúa því að kosningunum í nóvember hafi verið stolið af honum með umfangsmiklu kosningasvindli.

Það fylgir því þó ákveðin áhætta fyrir Repúblikanaflokkinn. Nú þegar hafi fyrirtæki og félög heitið því að draga úr fjárhagslegum stuðningi við Trump-liða á þingi. Þar að auki hafa andstæðingar Trumps, bæði innan Repúblikanaflokksins og utan hans, lýst því yfir að framferði hans og undirlægjuháttur Repúblikana verði notaður gegn þeim í komandi kosningum.

Jaime Harrison, formaður landsnefndar Demókrataflokksins, sagði í samtali við AP að Demókratar myndu minna kjósendur á það að Repúblikanar væru tilbúnir til að leggja embættiseiði sína til hliðar fyrir Trump og að hann væri þeim mikilvægari en kjósendur þeirra.

Í kjölfar sýknu hans sendi Trump frá sér tilkynningu þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi deila frekari upplýsingum um pólitíska framtíð sína á næstu mánuðum.

„Söguleg, föðurlandselskandi og falleg hreyfing okkar til að gera Bandaríkin mikil á nýjan leik er bara rétt að byrja,“ sagði Trump.


Tengdar fréttir

Sýkna Trumps á­minning um að lýð­ræðið er brot­hætt

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að sýkna Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, í ákæru um embættisbrot sé áminning um að lýðræði sé brothætt. Hann segir að þrátt fyrir sýknuna sé alvarleiki málsins ekki deiluefni.

Hætta við að kalla til vitni

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur ákveðið að hætta við að kalla til vitni í réttarhöldum deildarinnar yfir Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þannig hefur verið komið í veg fyrir að réttarhöldin dragist á langinn og er nú búist við að niðurstaða fáist í málið á næstu dögum.

Ræða það að stofna nýjan flokk vegna Trumps

Tugir manna sem starfað hafa innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum íhuga nú að stofna nýjan flokk. Ástæðan er sú að þeir eru ósáttir við tak Donalds Trumps á Repúblikanaflokknum og það að forkólfar flokksins þori ekki að standa í hárinu á forsetanum fyrrverandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×