Erlent

Hætta við að kalla til vitni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Réttarhöldin yfir Trump fara nú fram í öldungadeild Bandaríkjaþings. 
Réttarhöldin yfir Trump fara nú fram í öldungadeild Bandaríkjaþings.  Senate Television /AP

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur ákveðið að hætta við að kalla til vitni í réttarhöldum deildarinnar yfir Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þannig hefur verið komið í veg fyrir að réttarhöldin dragist á langinn og er nú búist við að niðurstaða fáist í málið á næstu dögum.

Öldungadeildin ákvað fyrr í dag að kalla til vitni í réttarhöldunum og greiddu 55 þingmenn öldungadeildarinnar atkvæði með því að kalla vitnin til. Saksóknarar í málinu höfðu lýst yfir áhuga á því að fá fram vitnisburð fulltrúadeildarþingmannsins og Repúblikanans Jamie Herrera Butler, sem var einn þeirra tíu Repúblikana sem greiddi atkvæði með því að ákæra Trump.

Verjendur Trumps og saksóknarar í málinu komust að samkomulagi um að sleppa vitnaleiðslunum og þess í stað leggja fram vitnisburð Butler á upptöku. Saksóknarar vilja sérstaklega fá upplýsingar frá henni um símtal milli Trumps og Kevins McCarthy, leiðtoga Repúblikana í fulltrúadeildinni. Í því símtali er Trump meðal annars sagður hafa skammað McCarthy og á hann að hafa sagt að múgurinn sem réðst inn í þinghúsið 6. janúar hafi látið sig úrslit forsetakosninganna meiru varða en McCarthy.

Ákvörðun öldungadeildarinnar vakti mikla furðu innan herbúða forsetans fyrrverandi, en búist var við því að niðurstaða fengist í málið í fyrsta lagi í dag. Flestir vestanhafs búast við því að forsetinn fyrrverandi verði sýknaður, en til þess að hann verði sakfelldur þurfa allir fimmtíu öldungadeildarþingmenn Demókrata auk sautján þingmanna Repúblikana að greiða atkvæði með sakfellingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×