Erlent

Leið­togi Repúblikana sagður ætla að greiða at­kvæði gegn sak­fellingu Trumps

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mitch McConnell er leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings.
Mitch McConnell er leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings. Chip Somodevilla/Getty

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, ætlar að greiða atkvæði gegn sakfellingu Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í réttarhöldum deildarinnar yfir Trump sem standa nú yfir.

Frá þessu greinir fréttastofa CNN og bætir við að McConnell hafi sagt kollegum sínum á þingi frá þessari ákvörðun sinni. Ákvörðun McConnell er talin gefa sterka vísbendingu um að meirihluti þeirra fimmtíu Repúblikana sem sitja í deildinni muni fylgja fordæmi hans og greiða atkvæði með sýknu. Til þess að af sakfellingu verði þurfa 67 af hundrað þingmönnum deildarinnar að greiða með henni atkvæði.

Trump var ákærður af fulltrúadeild þingsins í síðasta mánuði og er gefið að sök að hafa sigað stuðningsmönnum sínum á þingið þann 6. janúar síðastliðinn. Eins og frægt er, þá brutu stuðningsmenn forsetans sér leið inn í þinghúsið eftir fjöldafund hans við Hvíta húsið og var eitt af markmiðum þeirra að stöðva formlega staðfestingu niðurstaða forsetakosninganna í nóvember og tryggja Trump völd áfram.

Öldungadeildin er nú með ákæruna til meðferðar. Fyrri atkvæðagreiðsla um hvort málaferlin stæðust stjórnarskrá, þar sem Trump er ekki lengur í embætti, er talin gefa vísbendingu um þann fjölda Repúblikana sem er opinn fyrir því að sakfella forsetann fyrrverandi. Þar tóku sex Repúblikanar sér stöðu með Demókrötum og greiddu atkvæði með því að taka ákæruna til meðferðar í þinginu og hefja réttarhöldin.

Fyrir var ekki talið líklegt að fleiri en þessir sex þingmenn Repúblikana myndi greiða atkvæði með sakfellingu. Fréttir af meintri afstöðu Mitch McConnell til málsins renna stoðum undir það, og eru sterk vísbending um að Trump muni öðru sinni sleppa við sakfellingu í öldungadeildinni. Hann var ákærður fyrir embættisbrot í árslok 2019 og sýknaður í febrúar á síðasta ári. Hann er eini forsetinn sem hefur tvisvar verið ákærður fyrir embættisbrot.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.