Veður

Allt að 9 stiga frost en mildara veður á næstunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Daginn er tekinn að lengjast með hækkandi sól. 
Daginn er tekinn að lengjast með hækkandi sól.  Vísir/Vilhelm

Í dag er spáð suðaustan- og austanátt, 5 til 10 metrum á sekúndu en 10 til 15 við suðurströndina. Él sunnan- og austanlands, en víða bjartviðri á Norðvestur- og Vesturlandi. Heldur hægari vindur allra syðst seint á morgun. Hiti í kringum frostmark en frost 0 til 9 stig norðan- og austantil.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að næstu dagar verði keimlíkir síðustu rúmlega þremur vikum, með austanátt og sums staðar él, einkum við suður- og suðausturströndina. Þó verði heldur mildara veður en að undanförnu. 

„Staða hæða og lægða hefur verið nánast læst að undanförnu, en sem þýðir að stórar og miklar hæðir sitja sem fastast og lægðirnar, sem oft ýta við þeim og ryðjast í kjölfar þeirra, hafa ekki haggað hæðunum. Á meðan liggur litla Ísland í fremur aðgerðalitlu veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Hins vegar sé farið að glitta í breytingar og um miðja viku fara lægðirnar að vera nærgengari og skilin nálgast landið með úrkomubakka og einhver hlýindi.

Veðurhorfur næstu daga:

Á mánudag: Austan og norðaustan 5-13 m/s. Él á SA- og A-landi og einnig á annesjum fyrir norðan, en bjartviðri V-lands. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst.

Á þriðjudag: Norðaustan 8-13 NV-til, annars hægari vindur. Él, einkum N-lands og frost 0 til 10 stig, mildast syðst.

Á miðvikudag: Austlæg átt og víða él, en úrkomulítið á A-landi. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst.

Á fimmtudag: Suðaustanátt og él S-til á landinu, en þurrt fyrir norðan. Hiti kringum frostmark, en frost 0 til 5 stig N- og A-lands.

Á föstudag: Útlit fyrir suðaustanátt með slyddu eða rigningu á S-verðu landinu. Hlýnandi veður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.