Erlent

Seiðmaðurinn fær lífrænan mat í fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Jacob Chansley, sem gengur einnig undir nafninu Jake Angeli og er kallaður Qanon seiðmaðurinn, á öngum þinhúss Bandaríkjanna.
Jacob Chansley, sem gengur einnig undir nafninu Jake Angeli og er kallaður Qanon seiðmaðurinn, á öngum þinhúss Bandaríkjanna. EPA/JIM LO SCALZO

Jacob Chansley, sem gengur undir nafninu Qanon seiðmaðurinn, má fá lífrænt ræktaðan mat í fangelsi, eins og hann hefur farið fram á. Það var niðurstaða alríkisdómara eftir að lögmaður Chansley sagði hann þarfnast þess vegna heilsu hans og trúar.

Chansley, gengur einnig undir nafninu Jake Angeli, var einn þeirra sem braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar og þótti hann einkar áberandi. Sérstaklega vegna klæðaburðar hans og framkomu og var hann meðal þeirra fyrstu sem voru handteknir vegna árásarinnar.

Sjá einnig: Öfgamenn áberandi í árásinni á þinghúsið

Skömmu eftir að hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa krafðist Chansley þess að hann fengi lífrænt ræktaðan mat sem innihéldi ekki ónáttúrleg efni. Því var hafnað.

Lögmaður hans fór svo fram á það fyrir dómstólum og sagði að vegna trúar hans sem seiðmaður myndi það að borða mat sem er ekki lífrænt ræktaður og innihéldi áðurnefnd efni, valda honum líkamlegum skaða. Lögmaðurinn sagði einnig að Chansley hefði lést mjög í haldi og heilsa hans versnað, samkvæmt frétt Politico.

Hann sagði sömuleiðis að Chansley hefði ekkert borðað frá 25. janúar.

„Ég er tilbúinn til að biðja í gegnum sársaukann og gera mitt besta til að kvarta ekki,“ skrifaði Chansley sjálfur í kröfuna. Hann sagðist nokkrum sinnum hafa neytt matar annars en andlegrar fæðu sinnar og það hafi kostað hann.

Sem andlegur maður væri hann til búinn til að þjást fyrir trú sína og sannfæringu.

Lögmaður fangelisyfirvalda í Washington DC sagði alfarið rangt að Chansley hefði ekkert borðað síðan 25. janúar.

Chansley vill vera sleppt úr fangelsi og segja lögmenn hans að hann hafi ekki verið virkur þátttakandi í nokkurs konar uppreisn, eins og talið er mögulegt að þátttakendur í árásinni gætu verið ákærðir fyrir.

Þá saka lögmenn hans Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, um að bera ábyrgð á árásinni með því að hvetja stuðningsmenn sína áfram á fjöldafundi við Hvíta húsið skömmu áður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×