Erlent

Öfgamenn áberandi í árásinni á þinghúsið

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá upphafi árásarinnar í gær.
Frá upphafi árásarinnar í gær. AP/Manuel Balce Ceneta

Þeir fjölmörgu óeirðaseggir sem brutu sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna til að stöðva staðfestingu niðurstaða forsetakosninganna í nóvember í gærkvöldi eiga það flestir sameiginlegt að vera stuðningsmenn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.

Margir báru fána Bandaríkjanna og fána sem tengjast framboði Trumps. Í hópunum mátti einnig sjá fjölmarga annars konar fána og merkingar sem eru tákn margra fylkinga. Heilt yfir eru þó nokkrar fylkingar og málstaðir sem sameina flesta þátttakendur í óeirðunum.

Þarna mátti til að mynda sjá fylgjendur Qanon og aðra svokallaða samsæringa, nýnasista og meðlimi fjarhægri fylkingarinnar Proud Boys.

Sá aðili sem naut hvað mestrar athygli á samfélagsmiðlum í gærkvöldi var ber að ofan, með bandaríska fánan málaðan framan í sig og á spjóti sem hann bar og með loðinn hornahatt á höfðinu.

Jake Angeli eða „Qanon seiðmaðurinn“ og vinir hans á göngum þinghússins.EPA/JIM LO SCALZO

Sá heitir Jake Angeli og er frá Arizona en hann kallar sig „Qanon seiðmanninn“. Hann hefur verið sérstaklega áberandi í mótmælum undanfarna mánuði vegna forsetakosninganna.

Qanon-hreyfingin er í grunninn fólk sem trúir því að Trump standi í leynilegri baráttu gegn hring djöfladýrkandi barnaníðinga sem hafi komið sér fyrir innan hins opinbera í Bandaríkjunum og hafi mjög mikil völd. Utan á það hafa svo hlaðist fjölmargar og margvíslegar samsæriskenningar á undanförnum árum.

Konan sem skotin var til bana í gærkvöldi fylgdi einnig hreyfingunni að málum.

Í samtali við CNN sagði frændi Angeli að hann teldi Jake var á milli starfa um þessar mundir og sagði hann vera föðurlandsvin og „mjög mikla Bandaríkjatýpu-manneskju“.

Þarna voru einnig nýnasistar og nettröll eins og Tim Gionet, sem kallast Baked Alaska, en hann vakti fyrst athygli á samkomu þjóðernissinna í Charlottesville árið 2017. Hann streymdi frá árásinni á þinghúsið á netinu og sýndi meðal annars að hann og aðrir fóru inn á skrifstofur þingmanna.

Samkvæmt Anchorage Daily News, kölluðu áhorfendur hans eftir því að þingmenn yrðu myrtir.

Gionet hefur verið bannaður af flestum samfélagsmiðlum og myndbandaveitum fyrir að dreifa hatursáróðri.

Nick Ochs, einn stofnenda Proud Boys, var einnig myndaður í þinghúsinu. Hann tísti til að mynda mynd af sér reykja í byggingunni, sem er bannað. Þegar blaðamenn CNN náðu af honum tali sagðist hann hafa farið inn í húsið sem blaðamaður og hann hefði ekki farið inn á skrifstofu nokkurs þingmanns.

Ochs sagði þúsundir hafa verið í byggingunni og að hann hefði einfaldlega gengið þar inn án vandræða. Enginn hefði reynt að stöðva hann.

Proud Boys er hreyfing öfgahægrimanna sem yfirvöld hafa margsinnis bendlað við ofbeldi í tengslum við mótmæli í Bandaríkjunum á undanförnum misserum.

Richard Barnett við skrifborð Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.EPA/JIM LO SCALZO

Annar maður sem naut mikillar athygli í gær var Richard Barnett en hann fór inn á skrifstofu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, og settist meðal annars niður í skrifborðsstól hennar.

Í samtali við blaðamann New York Times sagðist hann hafa tekið umslag frá skrifstofu Pelosi en þvertók fyrir að hafa stolið því.

„Ég skyldi skilding eftir á skrifborði hennar, jafnvel þú hún sé ekki þess virði,“ sagði hann. Hann sagðist einnig hafa skrifað skilaboð til hennar og skilið þau eftir. Þau hafi verið á þá leið að hann hafi verið í skrifstofu hennar og að hún væri „tík“.

Í frétt Washington Post er sagt frá því að Barnett, sem er frá Arkansas, hafi gagnrýnt Pelosi á Facebook fyrir að nota skilgreininguna „hvítir þjóðernissinnar“. Hann sagði einnig á sömu Facebooksíðu, sem hann stofnaði undir dulnefni, að fólk sem væru ekki þjóðernissinnar ættu að „drulla sér úr þjóð okkar“.

Á einum af minnst tveimur Facebooksíðum sem hann hefur stofnað undir dulnefni birti hann í síðasta mánuði mynd af sjálfum sér þar sem hann var vopnaður og sagðist tilbúinn til að deyja á blóðugan máta.


Tengdar fréttir

„Hann var algjört skrímsli í dag“

Donald Trump Bandaríkjaforseti varði gærkvöldinu í Hvíta húsinu umkringdur nánustu ráðgjöfum sínum, á meðan annað starfsfólk fylgdist með þróun mála í vantrú og skelfingu.

„Munið þennan dag að eilífu“

Undir lok baráttufundar Donalds Trump, fráfarandi forseta, við Hvíta húsið í gær, sagði hann stuðningsmönnum sínum að berjast til að bjarga landi þeirra. Nú væri tíminn til að sýna styrk.

Hverjar verða afleiðingar atburða gærdagsins?

Mikill titringur er í Washington D.C. eftir atburðarás gærdagsins og meðal annars rætt óformlega um að koma forsetanum frá. Bandaríska þingið lauk í gær talningu atkvæða kjörmanna og því ekkert sem kemur í veg fyrir að Joe Biden verði forseti 20. janúar nk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×