Erlent

Grunaður um að hafa banað ís­lenskri konu í Dan­mörku

Atli Ísleifsson skrifar
Ekkert hafði sést til Freyju síðan á fimmtudagkvöld.
Ekkert hafði sést til Freyju síðan á fimmtudagkvöld. Getty

Íslensk kona sem lögregla í Danmörku lýsti eftir í gær hefur fundist látin. Fyrrverandi sambýlismaður hennar, sem er 51 árs, er í haldi lögreglu og grunaður um að hafa orðið henni að bana.

Ekstrabladet segir frá þessu og vísar í tilkynningu frá lögreglu. Lögregla lýsti í gær eftir hinni 43 ára Freyju Egilsdóttur sem búsett hefur verið í Malling, suður af Árósum, á Jótlandi. Búið er að upplýsa fjölskyldu Freyju um andlátið.

DV segir frá því að Freyja hafi búið í Danmörku um árabil og stofnað til fjölskyldu þar í landi.

Ekkert hafði sést til Freyju síðan á fimmtudagkvöld. Lögregla á Austur-Jótlandi segir frá því að líkamsleifar hafi svo fundist á og við heimili hennar í Veilgårdsparken í Malling.

Í tilkynningu lögreglu segir að fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi verið handtekinn í gærmorgun. Hann var svo færður fyrir dómara í Árósum nú í morgun þar sem farið verður fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald. Réttarmeinarannsókn fer fram í dag.

Maðurinn hafði sjálfur tilkynnt lögreglu um hvarf konunnar á þriðjudagsmorguninn, en fljótt fór grunur lögreglu að beinast að manninum og var hann þá handtekinn.

Tilkynnt um veikindi í smáskilaboðum

Lögreglustjórinn Michael Kjeldgaard segist í samtali við Ritzau ekki geta upplýst um hvort maðurinn játi eða neiti sök í málinu. Hann getur sömuleiðis ekki upplýst um mögulegar ástæður morðsins. Sömuleiðis sé verið að rannsaka hvenær konan hafi verið ráðinn bani.

Danskir fjölmiðlar greina frá því að konan hafi starfað á öldrunarheimili í bænum Odder. Smáskilaboð hafi borist til vinnuveitenda á laugardaginn þar sem hún tilkynnt var um veikindi. Þó sé óljóst hvort hún hafi raunverulega sent umrædd skilaboð. 

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×