Erlent

Fjöldi dýra greinst með Covid-19

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þetta tígrisdýr hefur sem betur fer ekki smitast af veirunni.
Þetta tígrisdýr hefur sem betur fer ekki smitast af veirunni. AP/Petros Giannakouris

Fjöldi dýra hefur smitast af kórónuveirunni frá því faraldurinn braust út á síðasta ári. Rannsóknir benda til þess að eigendur geti smitað gæludýr sín.

Nokkur fjöldi tilfella þar sem gæludýr hafa smitast hafa komið upp. Frettur, kanínur, hamstrar, hundar og kettir hafa smitast af veirunni en rannsóknir á því hversu alvarleg veikindin eru fyrir dýrin liggja ekki fyrir. 

Ekki er vitað til þess að Covid-19 hafi dregið gæludýr til dauða þótt veiran hafi greinst í dauðum hundum og köttum.

Mörg smit í dýragörðum

Dýr af fjölda tegunda hafa sömuleiðis smitast í dýragörðum. Veiran hefur greinst í flestum tegundum stórra kattardýra sem og í þvottabjörnum, apaköttum og mannöpum. Þá hafa leðurblökur, svín og nautgripir einnig smitast á tilraunastofum eða á býlum.

Stærsta dæmið um smit í dýrum til þessa er þegar stökkbreytt afbrigði veirunnar greindist í minkum í Danmörku og milljónum minka var slátrað í kjölfarið.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Guelph-háskóla í Kanada er útlit fyrir að eigendur heimiliskatta og hunda hafi smitað gæludýr sín en engar vísbendingar eru um, samkvæmt rannsakendum í Hong Kong, að gæludýr smiti eigendur sína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×