Enski boltinn

Merson: Guardiola og Klopp hefði ekki tekist þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og  Jürgen Klopp heilsast fyrir leik Liverpool og Manchester City á dögunum.
Pep Guardiola og  Jürgen Klopp heilsast fyrir leik Liverpool og Manchester City á dögunum. Getty/Martin Rickett

Knattspyrnusérfræðingurinn og gamla Arsenal-hetjan Paul Merson er á því að Brendan Rodgers sé búinn að gera hluti sem hvorki Pep Guardiola eða Jürgen Klopp hefðu náð með sama lið.

Leicester City komst upp í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir sigur á Chelsea á þriðjudagskvöldið en Manchester City tók af þeim efsta sætið í gærkvöldi og nú er Leicester City komið niður í þriðja sætið eftir sigur Manchester United í seinni leiknum í gær.

Það eru eru hins vegar margir hissa á því að sjá Leicester City vera á þessum stað í töflunni og liðið er sem dæmi fjórum stigum ofar en Englandsmeistarar Liverpool.

Paul Merson hrósaði Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Leicester City, mikið á Sky Sports eftir sigurinn á Chelsea.

„Ég sé ekki fyrir mér að Pep Guardiola eða Jürgen Klopp hefðu getað gert það sem Brendan Rodgers er búinn að gera hjá Leicester,“ sagði Paul Merson á Sky Sports.

Leicester hefur unnið síðustu tvo leiki sína 2-0, fyrst á móti Southampton og svo á móti Chelsea.

Leicester liðið hefur alls unnið 12 af 19 leikjum sínum og er fjórtán mörk í plús. Liðið var að vinna sinn þriðja leik í röð á móti Chelsea og hefur ekki tapað síðan á móti Everton viku fyrir jól.

Leicester kom auðvitað öllum á óvart með því að vinna enska titilinn undir stjórn Claudio Ranieri árið 2016.

Rodgers var líka með Leicester liðið í góðum málum í fyrra en liðið missti þá af Meistaradeildarsæti eftir slakt gengi þegar enska úrvalsdeildin hófst á ný eftir kórónuveiruhlé. Nú er spurningin hvort honum takist að skila liðinu inn í Meistaradeildina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.