Tottenham ekki í vandræðum með botnliðið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tveir af markaskorurum dagsins.
Tveir af markaskorurum dagsins. vísir/Getty

Tottenham átti ekki í teljandi vandræðum með botnlið ensku úrvalsdeildarinnar þegar Sheffield United fékk lærisveina Jose Mourinho í heimsókn á Bramall Lane í dag.

Leikurinn var aðeins fimm mínútna gamall þegar Serge Aurier skallaði hornspyrnu Son Heung Min í netið.

Harry Kane tvöfaldaði forystu gestanna skömmu fyrir leikhlé þar sem leikmenn Tottenham voru fljótir að refsa Oliver Norwood fyrir slæm mistök í uppspili Sheffield manna.

Heimamenn gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í 1-2 á 59.mínútu þegar David McGoldrick skoraði.

Tottenham voru fljótir að svara því Tanguy Ndombele gerði út um allar vonir heimamanna á 62.mínútu þegar hann skoraði eftir stoðsendingu Steven Bergwijn.

Lokatölur 1-3 fyrir Tottenham sem lyftir sér upp í fjórða sæti deildarinnar, með þremur stigum minna en topplið Manchester United. Sheffield United eftir sem áður á botni deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira