Enski boltinn

Sakar Jürgen Klopp um hræsni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp er ekki sáttur með dómgæsluna í leikjum Liverpool að undanförnu.
Jürgen Klopp er ekki sáttur með dómgæsluna í leikjum Liverpool að undanförnu. Getty/Owen Humphreys

Gamli dómarinn Mark Clattenburg var ekki hrifinn af orðum knattspyrnustjóra Liverpool á dögunum.

Mark Clattenburg skrifar reglulega dómarapistla í Daily Mail og að þessu sinni tók hann fyrir Jürgen Klopp og orð hans á dögunum. Klopp gagnrýndi þá dómgæslu í leikjum Liverpool.

Klopp var óánægður með það að Liverpool liðið væri ekki að fá víti og nefndi sem dæmi hversu margar vítaspyrnur Manchester United liðið er búið að fá á síðustu misserum.

„Jürgen Klopp hlýtur að vera orðinn áhyggjufullur því orð hans í síðustu viku um Manchester United og vítaspyrnur eru beint úr taktíkbók Sir Alex Ferguson,“ skrifaði Mark Clattenburg í pistli sínum.

„Þetta var sálfræðistríð og tilraun til að hafa áhrif á Paul Tierney dómara. Hann var að reyna að komast inn í hausinn á honum fyrir þennan risaleik Liverpool og United á sunnudaginn,“ skrifaði Clattenburg.

„Klopp hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að United liðið hafi fengið fleiri víti undanfarin tvö ár en Liverpool hafði fengið á fimm og hálfu ári hans hjá félaginu. Hann var klókur því þessi ummæli koma honum ekki í nein vandræði hjá yfirvöldum deildarinnar,“ skrifaði Clattenburg.

„En höfum eitt á hreinu. Það er ekkert samsæri í gangi hjá dómurum eða starfsmönnum. Var Klopp að gefa slíkt í skyn? Eða var hann að ýja að því að United sé að hvetja sína leikmenn til að dýfa sér? Ef svarið er þetta fyrra þá hef ég engan tíma fyrir slíkt. Það er ekki satt,“ skrifaði Clattenburg.

„Ef hann ætlaði sér að vekja athygli á því hversu auðveldlega leikmenn United fara niður í teignum þá tel ég hann hafi eitthvað fyrir sér í því. Ég hef skoðað vel þær vítaspyrnur sem United liðið hefur fengið. Það eru að minnsta kosti fimm þar sem ég tel að leikmaður Manchester United hafi búið sjálfur til snertinguna,“ skrifaði Clattenburg.

„Hér verður Klopp samt að fara varlega því þetta var nákvæmlega það sama og hjá Sadio Mane þegar hann fór niður eftir samskipti sín við Kyle Walker-Peters í 1-0 tapinu á móti Southampton,“ skrifaði Clattenburg.

„Það er ýmislegt hægt að taka úr þessum orðum Klopp eftir þennan leik. Í fyrsta lægi þá hljómar hann eins og hræsnari ef hann er að halda því fram að leikmenn United séu að reyna að fiska vítaspyrnur. Leikmenn eins og Mo Salah og Mane eru að gera það sama,“ skrifaði Mark Clattenburg í pistli sínum en hann má finna allan hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.