Erlent

Ígildi íslensku þjóðarinnar liggur í valnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin af Covid-19 sjúklingi í Los Angeles en þar deyr einn vegna sjúkdómsins á um nítján mínútna fresti, að meðaltali.
Þessi mynd var tekin af Covid-19 sjúklingi í Los Angeles en þar deyr einn vegna sjúkdómsins á um nítján mínútna fresti, að meðaltali. AP/Jae C. Hong

Alls hafa 365.346 dáið vegna Covid-19 í Bandaríkjunum, samkvæmt samantekt Johns Hopkins háskólans, þar sem haldið er utan um opinberar tölur. Það þýðir að fleiri hafa dáið þar en Íslendingar voru í upphafi síðasta árs.

Samkvæmt Hagstofu íslands voru Íslendingar alls 364 þúsund talsins þann 1. janúar í fyrra. Ekki er búið að gefa út nýjar tölur enn.

Gærdagurinn var sá banvænasti vestanhafs frá því faraldur nýju kórónuveirunnar hófst og var það í fyrsta sinn sem fleiri en fjögur þúsund Bandaríkjamenn dóu vegna Covid-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. Alls dóu 4.085 í gær, samkvæmt opinberum tölum.

Í heildina hafa rúmlega 21,5 milljón manna smitast af Covid í Bandaríkjunum. Sérfræðingar segja að þó bólusetningar séu byrjaðar, séu mánuðir þar til nægilega margir hafi verið sprautaðir til að draga úr dreifingu veirunnar.

Í frétt CNN er vísað í spálíkön þar sem fram kemur að allt að 115 þúsund manns gætu dáið til viðbótar á næstu fjórum vikum.

Ástandið er sérstaklega slæmt í Kaliforníu þar sem rúmlega þúsund manns hafa dáið á tveimur dögum. Í Los Angeles sýslu deyr einhver úr Covid-19 á nítján mínútna fresti.

Þeim fer einnig hratt fjölgandi sem deyja í Brasilíu og hafa nú rúmlega tvö hundruð þúsund manns dáið þar í landi, svo vitað sé. Látnum fjölgaði um 1.524 á milli daga og er heildartalan nú í 200.498, samkvæmt AP fréttaveitunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.