Enski boltinn

Diallo orðinn leikmaður Man Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Amad Diallo í leik með Atalanta í Meistaradeild Evrópu, gegn Midtjylland.
Amad Diallo í leik með Atalanta í Meistaradeild Evrópu, gegn Midtjylland. Getty/Jonathan Moscrop

Kantmaðurinn Amad Diallo er formlega orðinn leikmaður Manchester United en enska knattspyrnufélagið greindi frá þessu síðdegis.

Diallo er 18 ára gamall Fílabeinsstrendingur sem kemur til United frá Atalanta á Ítalíu. Greint var frá samkomulagi United við Atalanta um kaupverð 5. október síðastliðinn, á síðasta degi sumarfélagaskiptagluggans. Þá átti þó eftir að klára læknisskoðun, útvega atvinnuleyfi og semja við Diallo um kaup og kjör, sem er allt frágengið núna.

Samningur Diallos við United er til sumarsins 2025.

Á heimasíðu United kemur einnig fram að beðið sé eftir vegabréfsáritun fyrir Diallo. Þegar hún sé í höfn muni kappinn ferðast til Manchester og geti þá byrjað að æfa og spila með United-liðinu.

Diallo á að baki 5 leiki með aðalliði Atalanta og skoraði hann í þeim eitt mark, í sínum fyrsta leik með aðalliðinu gegn Udinese í október 2019.

„Sem félag þá höfum við fylgst með Amad í nokkur ár og eftir að hafa horft á hann sjálfur þá tel ég að hann sé einn efnilegasti og mest spennandi, ungi leikmaðurinn í dag,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United. Sagði hann Diallo hafa allt til brunns að bera til að verða mikilvægur leikmaður fyrir United á komandi árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×