Erlent

Fjórir látnir eftir árásina á þinghúsið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ótrúleg atburðarás varð við þinghús Bandaríkjaþings, Capitol Hill, í gær þegar æstur múgur, stuðningsmenn Trumps, braut sér leið inn í húsið.
Ótrúleg atburðarás varð við þinghús Bandaríkjaþings, Capitol Hill, í gær þegar æstur múgur, stuðningsmenn Trumps, braut sér leið inn í húsið. Getty/Robert Nickelsberg

Að minnsta kosti fjórir eru látnir eftir óeirðirnar við þinghús Bandaríkjaþings í Washington DC í gær.

Þar á meðal er ein kona, stuðningsmaður Donalds Trump, fráfarandi forseta, sem skotin var til bana af lögreglu þegar æstur múgurinn braut sér leið inn í þinghúsið í gær. Hinir þrír eru sagðir hafa látist af öðrum orsökum sem tengjast heilsufari þeirra.

Þá hafa 52 verið handteknir í tengslum við óeirðirnar en CNN greinir frá því að 47 þeirra hafi verið handteknir fyrir að brjóta gegn útgöngubanni sem tók gildi í Washington-borg klukkan sex í gærkvöldi að staðartíma, 23 að íslenskum tíma. Bannið gildir í tólf tíma.

Bandaríkjaþing kom aftur saman til fundar í nótt til að staðfesta atkvæði kjörmanna í bandarísku forsetakosningunum og staðfesta þar með kjör Joe Bidens sem næsta forseta Bandaríkjanna.

Þingið hefur nú loks staðfest kjörið eftir hin ótrúlegu atburðarás gærdagsins. Það var Mike Pence, fráfarandi varaforseti og einn helsti bandamaður Trumps undanfarin ár, sem las upp niðurstöðu atkvæðagreiðslu kjörmannanna og staðfesti þar með að Biden og Harris væru réttkjörin sem forseti og varaforseti Bandaríkjanna.

Vísir fylgist áfram grannt með gangi mála í Bandaríkjunum og í vaktinni hér fyrir neðan má fylgjast með öllu því helsta.

Fréttin var uppfærð klukkan 09:20.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.