Erlent

Mette grípur í handbremsuna og herðir aðgerðir

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AP

Dönsk stjórnvöld hafa hert sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirunnar en nú mega að hámarki fimm koma saman. Tveggja metra fjarlægðarreglan verður þá í gildi í stað eins metra reglunnar. Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið virkjað.

„Vertu heima hjá þér. Ekki hitta neinn annan en þú býrð með,“ sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra á blaðamannafundi í forsætisráðuneytinu og beindi máli sínu til landsmanna. Hún útskýrði að grípa þyrfti til aðgerðanna vegna nýja afbrigðis kórónuveirunnar sem gjarnan er kennt við Bretland en vísindamenn segja að hún smiti 50-70 prósent meira en önnur afbrigði.

„Ef við grípum ekki í taumana munu fleiri deyja og heilbrigðiskerfið okkar mun kikna undan álagi.“

Mette sagði líka að til greina kæmi að setja á ferðatakmarkanir á komur frá fleiri löndum en Bretlandi, til dæmis Suður-Afríku þar sem einnig hefur greinst hættuleg stökkbreyting. Hægt er að fylgjast með vendingunum í Danmörku á vef DR.

Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra, tók við og sagði að það væri ekki lengur spurning um hvort breska afbrigðið næði fótfestu í Danmörku heldur hvenær. Hann sagði að hann vildi forða því með öllu að ástandið yrði jafn slæmt og það er á Bretlandi og nefndi máli sínu til stuðnings  ljósmyndir frá Bretlandi þar sem sjá má sjúkrabíla í biðröð við sjúkrahúsin.

„Vonandi munu nýju takmarkanirnar tryggja að slíkt muni ekki eiga sér stað hér í Danmörku.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×