Enski boltinn

Leicester í þriðja sætið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Maddison hefur greinilega verið að horfa á píluna í Alexandra Palace því hann fagnaði með svokölluðu pílufagni.
Maddison hefur greinilega verið að horfa á píluna í Alexandra Palace því hann fagnaði með svokölluðu pílufagni. Plumb Images/Getty

Leicester skaust upp í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-2 sigur á Newcastle er liðin mættust í fyrri leik dagsins í enska boltanum.

Fyrri hálfleikurinn var afar tíðindalítill. James Maddison átti skot snemma leiks sem fór framhjá og skömmu síðar kom Jamie Vardy boltanum í netið en var dæmdur rangstæður. Réttur dómur.

Eina marktækifærið sem fór á markið var skalli Joelinton en Kasper Schmeichel, sem var að leika sinn 500. leik í enskri deildarkeppni, átti í engum vandræðum með skallann. Markalaust í hálfleik.

Fyrsta mark leiksins kom á tíundu mínútu síðari hálfleiks. Harvey Barnes kom boltanum á Jamie Vardy sem fór illa með Federico Fernandez, lagði boltann út á James Maddison sem skoraði sitt fjórða mark á tímabilinu.

Maddison var nálægt því að tvöfalda forystuna eftir klukkutímaleik með frábæru skoti en boltinn rétt framhjá. Þeir náðu hins vegar tveggja marka forystu á 72. mínútu er Youri Tielemans skoraði með flottu skoti eftir sendingu Marc Albrighton.

Átta mínútum fyrir leikslok minnkaði varamaðurinn Andy Carroll muninn með laglegu skoti eftir aukaspyrnu en nær komust heimamenn ekki.

Lokatölur 2-1 en Leicester er í þriðja sætinu með 32 stig, stigi á eftir Liverpool og Man. United sem eru í tveimur efstu sætunum, en þau eiga þó leiki til góða.

Newcastle er í fimmtánda sætinu með nítján stig eftir sextán leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×