Það var ekki bjart yfir Jürgen Norbert Klopp, þjálfara Liverpool, eða Virgil van Dijk, helsta varnarmanni þeirra, eftir 3-0 afhroð liðsins gegn Watford í gærkvöld. Var það fyrsta tap Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en hins vegar annað tap þeirra á aðeins 11 dögum.
DO NOT SCRATCH YOUR EYES! #WATLIVpic.twitter.com/1yWpGDEejM
— Watford Football Club (@WatfordFC) February 29, 2020
„Þeir gerðu það sem þeir vildu, við gerðum það ekki. Þannig virkar fótbolti,“ sagði Klopp í viðtali við BBC eftir leikinn.
„Maður verður að sætta sig við það, það er ekki auðvelt en við vorum ekki nægilega góðir í kvöld,“ sagði Klopp jafnframt um tapið.
„Ef þú vinnur, gott. Ef þú tapar, reyndu að gera það eins og maður,“ sagði Þjóðverjinn síkáti að lokum.
Van Dijk dró fram klisjubókina
Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool vildi reyna horfa á einn leik í einu.
„Ég verð að hrósa Watford, þeir spiluðu mjög vel og skoruðu þrjú mörk, það er raunveruleikinn. Við gátum ekki brotið þá á bak aftur. Þetta var erfitt og við verðum að gera betur.“
„Við leyfum fjölmiðlum að tala um einhver met, við viljum bara vinna hvern einasta leik,“ sagði Van Dijk og átti þar við met Arsenal liðsins frá tímabilinu 2003/2004 þegar liðið tapaði ekki einum einasta leik. Alls fór liðið 49 leiki án þess að tapa í ensku úrvalsdeildinni, Liverpool var komið upp í 44.
„Við þurfum að einbeita okkur að næsta leik og reyna að vinna hann. Við verðum að vera auðmjúkir og leggja meira á okkur í næsta leik,“ sagði hollenska varnartröllið að lokum.