Watford rótburstaði Liverpool | Arsenal heldur metinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Watford lék sér að Liverpool í kvöld.
Watford lék sér að Liverpool í kvöld. vísir/getty

Watford varð fyrsta liðið til að leggja Liverpool af velli í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en liðið kjöldró gesti sína úr Bítlaborginni á Vicarage Road í kvöld. Lokatölur 3-0 Watford í vil. Er þetta annað tap Liverpool í síðustu þremur leikjum en liðið tapaði 1-0 á útivelli gegn Atletico Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir 11 dögum síðan.

Liverpool sem var farið að ógna meti Arsenal með því að fara heilt tímabil, sem og 49 leiki samtals, án þess að tapa leik var hvorki fugl né fiskur í kvöld. Ríkjandi Evrópu- og verðandi Englandsmeistarar söknuðu fyrirliða síns Jordan Henderson gífurlega en liðið var einfaldlega aldrei líklegt til afreka í leiknum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik þá steig Ismaïla Sarr upp fyrir heimamenn en hann skoraði tvívegis með stuttu millibili. Fyrra mark hans kom eftir langt innkast þar sem boltinn skoppaði í teignum áður en Abdoulaye Doucoure lagði hann fyrir markið þar sem Sarr skoraði af öryggi.

Það síðara, sex mínútum síðar, var einkar laglegt en hann vippaði knettinum þá snyrtilega framhjá Alisson í marki Liverpool eftir sendingu fyrirliðans Troy Deeney inn fyrir vörn Liverpool. Það var svo Deeney sjálfur sem gulltryggði sigurinn á 72. mínútu leiksins og lokatölur 3-0 fyrir Watford í einhverjum ótrúlegasta leik tímabilsins. 

Þó Liverpool hafi átt skot í stöng í stöðunni 2-0 þá var liðið í raun aldrei líklegt til að skora í dag og sigur Watford meira en sanngjarn.

Með sigrinum komst Watford upp í 27 stig, jafn mikið og West Ham United og Bournemouth. Watford situr í 17. sæti með markatöluna -16, þar fyrir ofan eru West Ham með -14 en Bournemouth situr í því 18. sem er fallsæti með -17 í markatölu.


Tengdar fréttir

Engin handabönd um helgina og íþróttaviðburðir í hættu

Það er nú þegar ljóst að kórónaveiran mun hafa gífurleg áhrif á íþróttaviðburði næstu vikna og mánuða. Líklega verða engin handabönd á íþróttaviðburðum helgarinnar og þá hafa knattspyrnumenn sett sig í samband við Fifpro um smithættu.

Alonso bjargaði stigi fyrir Chelsea | Jóhann Berg frá vegna meiðsla

Marcos Alonso, vinstri bakvörður Chelsea, reyndist hetja liðsins er liðið náði aðeins 2-2 jafntefli gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þá vann West Ham United 3-1 sigur á Southampton á meðan Newcastle United og Burnley gerðu markalaust jafntefli. Jóhann Berg Guðmundsson lék ekki í dag en hann er frá vegna meiðsla.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira