Fleiri en 100.000 manns hafa nú greinst smitaðir af nýju afbrigði kórónuveiru í Rússlandi. Greint var frá mestri daglegri fjölgun nýrra smita frá upphafi faraldursins í dag. Vladímír Pútín forseti varar við því að faraldurinn hafi enn ekki náð hámarki sínu.
Stjórnvöld sögðu að 1010 hefði látist undanfarinn sólarhring í dag. Alls hafa því 1.073 látið lífið af völdum veirunnar til þessa samkvæmt opinberum tölum. Þrátt fyrir að fleiri smit hafi nú greinst í Rússlandi en í Kína og Íran er dánartíðni verulega lægri en í flestum þeirra ríkja sem hafa orðið verst úti í faraldrinum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Útgöngubann hefur verið í gildi í fimm vikur. Pútín sagði í sjónvarpsávarpi á þriðjudag að það yrði framlengt um tvær vikur.
„Ástandið er enn mjög erfitt. Við stöndum frammi fyrir nýjum og kannski ákafasta stiginu í glíma við faraldurinn,“ sagði forsetinn.
Seðlabanki Rússlands spáir 4-6% samdrætti vegna áhrifa útgöngubannsins og verðhruns á olíu.