Íslenski boltinn

Veðmálafyrirtæki vildu kaupa nafnið á Valsvellinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frá leik á Origo-velli þeirra Valsmanna.
Frá leik á Origo-velli þeirra Valsmanna. vísir/bára

Tvö veðmálafyrirtæki vildu kaupa nafnið á heimavelli Vals fyrir nokkrum árum. Þetta kom fram í Sportinu í dag. Jóhann Már Helgason var gestur þáttarins og ræddi um skýrslu sem hann vann um fjármál knattspyrnudeilda á Íslandi. Hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri Vals og Aftureldingar.

„Þegar samningurinn við Vodafone rann sitt skeið fórum við að skoða hvað Valsvöllurinn ætti að heita. Það var áður en samið var við Origo. Þá voru ekki mörg fyrirtæki til í að setja miklar fjárhæðir í þetta. En þá bönkuðu tvö meðmálafyrirtæki upp á hjá okkur að fyrra bragði og voru tilbúin að setja pening í þetta verkefni, að bera nafn vallarins,“ sagði Jóhann en veðmála- og áfengisfyrirtæki mega ekki auglýsa á íþróttaviðburðum á Íslandi.

„Ég fór með þetta fyrir aðalstjórn Vals en við ákváðum að gera þetta ekki. Þetta var umdeilt og hefði líklega fallið.“

Veðmála- og áfengisauglýsingar eru áberandi á íþróttaviðburðum erlendis. Mörg félög eru t.a.m. með auglýsingu frá veðmálafyrirtækjum framan á keppnistreyjum sínum.

„Þetta er mikið á Spáni og í neðri deildunum á Englandi. Ég er ekki að mæla fyrir þessu en það þarf að þora að taka þessa umræðu, hvort það væri hægt að heimila þetta fyrir félögin. Ég þykist vita að þetta myndi einfalda reksturinn hjá íþróttafélögum,“ sagði Jóhann.

Klippa: Sportið í dag - Jóhann um veðmála- og áfengisauglýsingar

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×