Enski boltinn

Keegan orðaður við aðra endurkomu til Newcastle

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kevin Keegan stýrði Newcastle síðast árið 2008.
Kevin Keegan stýrði Newcastle síðast árið 2008. Nordic Photos / Getty Images

Kevin Keegan gæti snúið aftur til Newcastle United eftir eigendaskipti hjá félaginu en þessi 69 ára gamli Englendingur hefur ekki þjálfað síðan hann yfirgaf Newcastle árið 2008 eftir ósætti við Mike Ashley.

Sádi-Arabinn Mohammed bin Salman er að ganga frá kaupum á Newcastle og þykir ólíklegt að Steve Bruce, núverandi stjóri liðsins, fái að leiða uppbygginguna sem fyrirhuguð er á St.James´ Park.

Ensku slúðurmiðlarnir ýja að endurkomu Keegan en hann er í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins.

Keegan lauk glæstum leikmannaferli sínum með því að spila fyrir Newcastle í ensku B-deildinni 1982-1984. Hans fyrsta starf á þjálfaraferlinum var svo hjá Newcastle en hann stýrði félaginu fyrst frá 1992-1997.

Í kjölfarið tók hann við enska landsliðinu og stýrði Manchester City um fimm ára skeið áður en hann sneri aftur til Newcastle 2008.

Hann hætti hins vegar eftir rúmlega hálft ár vegna ósættis við Mike Ashley, eiganda Newcastle, sem er nú að hverfa frá borði, stuðningsmönnum félagsins til mikillar gleði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×