Enski boltinn

Stuðningsmenn Chelsea völdu Eið Smára meðal þeirra 25 bestu í sögu félagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki með Chelsea á móti Arsenal á Highbury í desember 2004.
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki með Chelsea á móti Arsenal á Highbury í desember 2004. Getty/ Ben Radford

Stuðningsmenn Chelsea hafa notað fótboltaleysið á tímum kórónuveirunnar til að velja 25 bestu leikmenn félagsins frá upphafi.

Chelsea fólkið fór inn á Ranker síðuna og völdu og röðuðu 25 bestu leikmönnunum í sögu félagsins frá sæti 25 niður í þann besta.

Það hafa margir frábærir fótboltamenn spilað fyrir Chelsea en það þarf ekki að koma mikið á óvart að margir leikmenn liðsins í tíð rússneska eigandans Roman Abramovich séu á listanum enda hefur gullaldartíð Chelsea liðsins verið eftir að hann eignaðist félagið árið 2003.

Eiður Smári Guðjohnsen er einn af þeim sem spilaði með Chelsea bæði fyrir og eftir yfirtöku Roman Abramovich og átti hann frábær tímabil á báðum tímum.

Stuðningsmenn Chelsea eru líka ekki búnir að gleyma því sem Eiður Smári gerði fyrir félagið en hann var með 54 mörk og 27 stoðsendingar í 186 deildarleikjum fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Eiður Smári Guðjohnsen fagnar hér marki fyrir Chelsea á móti sínum gömlu félögum í Bolton Wanderers á Stamford Bridge.Getty/Clive Rose

Eiður Smári er í 23. sæti á listanum, næst á eftir þeim Dennis Wise og Jimmy Greaves en á undan þeim Arjen Robben og Nicolas Anelka.

GiveMeSport tók upp lista Chelsea fólksins á Ranker síðunni og skrifaði smá texta um framlag hvers og eins.

„Virkilega vanmetinn framherji. Íslenska hetjan var lykilmaður í liðinu áður en Abramovich kom og var síðan hluti af liðinu sem vann fyrstu tvo Englandsmeistaratitlana eftir að rússinn eignaðist félagið,“ segir um Eið Smára Guðjohnsen.

Það vekur síðan vissulega athygli að hvorki John Terry né Frank Lampard eru í efsta sætinu en það eru líklega þeir tveir leikmenn sem flestir myndu áætla að fengju fyrsta sætið.

John Terry er einn öflugasti miðvörðurinn og fyrirliðinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og Frank Lampard er ekki aðeins einn allra besti miðjumaðurinn í sögu ensku deildarinnar heldur er hann markahæsti leikmaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni með 147 mörk.

Það var aftur á móti framherjinn Didier Drogba sem tók það. Didier Drogba var mjög sigursæll með félaginu og hann skoraði alltaf í stóru leikjunum, meðal annars í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þegar Chelsea vann loks Meistaradeildina. Didier Drogba skoraði alls 104 mörk fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir

Eiður Smári: Okkur vantar smá endur­nýjun og ég er sam­mála því

Eiður Smári Guðjohnsen segir að frestun EM um eitt ári muni ekki breyta miklu fyrir landsliðið okkar. Eldri leikmenn munu líta á það sem hvatningu að halda sér gangandi í eitt ár til viðbótar til þess að fá tækifæri á að spila á EM næsta sumar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.