Erlent

Trump íhugar að setja New York í sóttkví

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugar að setja New York ríki í sóttkví. Þetta sagði forsetinn við blaðamenn fyrr í dag. New York hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum sem veldur COVID-19 sjúkdómnum þar sem 52 þúsund tilfelli hafa verið staðfest og í það minnsta 728 eru látnir.

Að sögn Trump gæti slíkt sóttkví hægt á útbreiðslu veirunnar þar sem hún hefur dreift sér víða í ríkinu. Þá segir hann slíkar aðgerðir einnig geta náð til hluta New Jersey og Connecticut og myndu þær standa yfir í tvær vikur.

Ástandið á sjúkrahúsum í New York er sagt afar slæmt og sagði Andrew Cuomo ríkisstjóri vera þörf fyrir 87 þúsund sjúkrarúm, 37 þúsund gjörgæslurúm og 26 þúsund öndunarvélar umfram það sem fyrir er vegna þess álags sem kórónufaraldurinn skapar. Í gær tilkynnti Elon Musk að hann hygðist gefa New York hundruð öndunarvéla til að bregðast við ástandinu.

Cuomo sagðist þó ekki hafa rætt slíkar sóttvarnaraðgerðir við forsetann. Hann hefði sjálfur ekki heyrt minnst á það að setja ætti ríkið í sóttkví og hann vissi í raun ekki hvað forsetinn ætti við með þeim orðum.

„Ég hef ekki átt það samtal,“ sagði Cuomo í samtali við blaðamenn.


Tengdar fréttir

Elon Musk útvegar öndunarvélar

Elon Musk hyggst gefa New York hundruð öndunarvélar til þess að bregðast við þeim skorti sem er í ríkinu.

Trump efast um þörf fyrir mikinn fjölda öndunarvéla

Donald Trump Bandaríkjaforseti og borgarstjórinn í New York eru komnir í hár saman yfir því hversu mikil þörf sé fyrir öndunarvélar í fylkinu. Forsetinn sagðist í sjónvarpsviðtali í gær ekki trúa því að þörfin væri jafn mikil og haldið væri fram. Bill de Blasio borgarstjóri New York sagði í dag að forsetinn þyrfti að horfast í augu við staðreyndir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×