Erlent

Yfir hundrað þúsund staðfest smit í Bandaríkjunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá New York í Bandaríkjunum. Langstærstur hluti smita landsins hefur greinst í ríkinu.
Frá New York í Bandaríkjunum. Langstærstur hluti smita landsins hefur greinst í ríkinu. Vísir/Getty

Hvergi hafa fleiri greinst með nýju kórónuveiruna sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19 en í Bandaríkjunum. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 104 þúsund manns greinst með veiruna þar í landi. Þar af hafa rúmlega 1700 látið lífið.

Þá hafa rúmlega 86 þúsund greinst á Ítalíu og rúmlega 9 þúsund látið lífið. Kína kemur svo í þriðja sæti með rúmlega 81 þúsund smit og tæplega 3300 dauðsföll. Hér má nálgast nánari tölfræði um veiruna á heimsvísu.

New York-ríki er það ríki Bandaríkjanna þar sem lang flest tilfelli hafa komið upp. Þar hafa hátt í 45 þúsund manns greinst og 527 látist. Næst á eftir kemur nágrannaríkið New Jersey þar sem rúmlega 8800 hafa greinst og 108 látist.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York-borgar, hefur sjálfur sagt að það ástand sem nú er uppi í ríkinu eigi einungis eftir að versna á næstu vikum og að alvarlegur skortur á mikilvægum heilsuvörum sé á næsta leiti.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York.Vísir/Getty

Þannig hefur hann harðlega gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir viðbrögð sín við faraldri kórónuveirunnar, en margir hafa sakað Trump um að taka faraldurinn ekki alvarlega, gera lítið úr honum og bregðast of seint við.

Þá bárust fréttir af því, fyrr í þessari viku, að forsetinn vildi láta slaka á takmörkunum sem settar hafa verið á daglegt líf bandarísks almennings til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Er hann sagður hafa haft það í huga til þess að láta bandarískt efnahagslíf ekki taka of mikinn skell.

Í gær undirritaði Trump hins vegar stærsta björgunarpakka fyrir fyrirtæki, launafólk og heilbrigðisþjónustu í sögu Bandaríkjanna. Pakkinn hljóðar upp á 2,2 billjónir dala og felur hann meðal annars í sér um 150 milljóna beingreiðslur til bandarískra heimila. Heildartala pakkans nemur þannig tæplega 305 þúsund milljörðum íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×