Enski boltinn

Jürgen Klopp fór að gráta þegar hann heyrði sönginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðinn Jordan Henderson með knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp eftir sigur Liverpool í Meistaradeildinni í júní í fyrra.
Fyrirliðinn Jordan Henderson með knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp eftir sigur Liverpool í Meistaradeildinni í júní í fyrra. Getty/Robbie Jay Barratt

Það eru margir að velta því fyrir sér hvort Liverpool, sem er með 25 stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, fái meistaratitilinn eða ekki. Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp segir að það skipti litlu máli eins og staðan er í dag þar sem fólk berst fyrir lífi sínu út um allan heim.

Tárin runnu hjá Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, þegar hann heyrði heilbrigðisstarfsfólk syngja „You’ll Never Walk Alone“ og hann segist vonast til þess að kórónuveirufaraldurinn búi til meiri samstöðu í heiminum.

Í fyrsta viðtali sínu frá því að leikjum í ensku úrvalsdeildinni var frestað 13. mars síðastliðinn þá sagði þýski stjórinn að hans vandamál, eins og hvenær fótboltinn byrjar aftur eða hvort Liverpool vinni titilinn, séu vandræðaleg í samanburði við öll vandamál heimsins.

Klopp lofaði heilbrigðis starfsmenn í fremstu víglínu sem setja sig sjálfa í hættu við að sinna þeim veiku. Margir þeirra hafa síðan sungið Liverpool sönginn á vaktinni og það hafði mikil áhrif á þýska stjórann.

„Þetta var ótrúlegt. Ég fékk sent myndband í gær þar sem fólk var rétt fyrir utan gjörgæsluna á sjúkrahúsi og byrjaði að syngja „You’ll Never Walk Alone“ og ég fór strax að gráta. Þetta er svo ótrúlegt. Þetta sýnir líka allt. Þetta fólk er ekki aðeins að vinna heldur er það að gera það með uppbyggjandi hætti,“ sagði Jürgen Klopp.

„Þau eru vön því að hjálpa öðru fólki. Við þurfum að venjast því þar sem við erum vanalega að hugsa um okkar eigin vandamál. Þetta er þeirra starf og þau sinna því á hverjum degi. Þau setja sjálfa sig í hættu, því þau eru að hjálpa þeim veiku. Ég gæti ekki borið meiri viðringu fyrir þeim eða metið starf þeirra meira,“ sagði Jürgen Klopp.

Klopp segir að leikmenn sínir og starfsmenn Liverpool liðsins haldi uppi góðum anda á þessum erfiðu tímum.

„Í framtíðinni, eftir 10, 20, 30 eða 40 ár, þá horfum við til baka og vonandi verður niðurstaða okkar þá að þetta hafi verið tími þar sem heimurinn sýndi mestan samhug, mestu ástina, mestu vináttuna því það væri frábært,“ sagði Klopp.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.