Erlent

Skautahöllin í Madrid notuð sem líkgeymsla

Kjartan Kjartansson skrifar
Verslunarmiðstöðin Íshöllin í Hortaleza-hverfi í Madrid er nú notuð sem líkhús til að geyma lík fólks sem lætur lífið vegna COVID-19.
Verslunarmiðstöðin Íshöllin í Hortaleza-hverfi í Madrid er nú notuð sem líkhús til að geyma lík fólks sem lætur lífið vegna COVID-19. Vísir/EPA

Samþykkt hefur verið að nota skautahöll í Madrid til að geyma lík fólks sem hefur látist af völdum kórónuveirunnar á meðan á faraldrinum stendur. Útfararstjórar í borginni tilkynntu yfirvöldum í gær að þeir gætu ekki tekið við líkum fólks sem lætur lífið úr COVID-19 þar sem starfsmenn þeirra skorti nauðsynlegan öryggisbúnað.

Um 150 manns deyja nú í Madrid af völdum veirunnar á hverjum degi. José Luis Martínez Almeida, borgarstjóri Madridar, sagði að þörf væri á skjótum aðgerðum í bréfi sem hann sendi heilbrigðisyfirvöldum og ríkisstjórninni vegna ákvörðunar útfararstjóranna.

Nú segir spænska dagblaðið El País að eigendur Íshallarinnar [sp. Palacio del hielo], verslunar- og afþreyingarmiðstöðvar með skautasvell, hafi boðið yfirvöldum að nota aðstöðuna þar til að geyma líkin. Heilbrigðisyfirvöld telja að þar sé nægilega kalt til að varðveita líkin.

Yfirvöld í sjálfstjórnarhéraðinu Madrid hafa þegar gefið því grænt ljós og byrjuðu hermenn að flytja fyrstu líkkisturnar þangað í gær. Hermenn gæta einnig líkanna þangað til hægt verður að brenna þau eða grafa.

„Þetta er tímabundið og óvenjulegt úrræði sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr sársauka fjölskyldna fórnarlambanna og ástandinu á sjúkrahúsum Madridar,“ hefur blaðið eftir héraðsyfirvöldum.

Rúmlega 35.000 manns hafa smitast af COVID-19 á Spáni og um 2.300 látist. Breiðist veiran nú hraðar og víðar út á Spáni en á Ítalíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×