Enski boltinn

Stjóratal á Skype sem fær eflaust marga til að brosa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skype fundurinn með knattspyrnustjórum ensku úrvalsdeildarliðanna.
Skype fundurinn með knattspyrnustjórum ensku úrvalsdeildarliðanna. Skjámynd/Youtube

Það er nauðsynlegt að finna húmorinn á erfiðum tímum ekki síst þegar fólk situr heima í sóttkví. Grínistinn Conor Moore bauð upp á skrautlegt stjóratal á Skype.

Eftirherman Conor Moore hefur lagt það í vana sinn að apa eftir frægustu knattspyrnustjórum ensku úrvalsdeildarinnar. Hann er nú kominn með ágætan hóp manna sem hann getur hermt eftir.

Conor Moore ákvað þar með í samstarfi við Paddy Power og í tilefni af því að margir eiga nú samskipti í gegnum Skype eða Facetime að setja saman mögulegt stjóratal á Skype.

Knattspyrnustjórarnir eru hvergi stærri stjörnur en í ensku úrvalsdeildinni og um leið eru þeir skotspónn grínista eins og Conor Moore.

Ole Gunnar Solskjaer, Jose Mourinho og Jürgen Klopp eru meðal þeirra stjóra sem kallaðir voru á þennan Skype fund en þar eru einnig Steve Bruce, Roy Hodgson, Brendan Rodgers og Pep Guardiola.

Knattspyrnustjóragrín Conor Moore snýst mikið um það sama en það er samt broslegt að sjá hvernig mögulegt samskipti stjóranna myndu fara fram á Skype.

Það er mikil óvissa um framtíð ensku úrvalsdeildarinnar á tímum kórónuveirunnar og umræddir knattspyrnustjórar eflaust með mismunandi sýn á stöðuna. Við skulum samt vona að þeir séu fagmannlegri en á þessum Skype fundi.

Hér fyrir neðan má sjá allt myndbandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×